Gamaldags íhaldsstjórn

Greinar

Smíði fjárlagafrumvarpsins er svo langt komin, að meginlínur þess eru komnar í ljós. Þær einkennast af lítils háttar hækkun skatta og lítils háttar minnkun þjónustu án þess að draga verulega úr hallanum á rekstri ríkisins. Þær einkennast af plástrum hér og þar.

Það er einmitt einkenni ríkisstjórnarinnar, að hún tekur ekki í alvöru á hlutum, heldur fer hér og þar undan í flæmingi og reynir annars staðar að halda í horfinu. Hún er ríkisstjórn óbreytts ástands, hvert sem það er á hverjum tíma. Hún er íhaldsstjórn í gömlum stíl.

Ríkisstjórnin minnir á ríkisstjórnir sömu flokka, sem voru oft við völd fyrir viðreisnarárin. Þá var ekki heldur tekið á neinu og Ísland dróst aftur úr öðrum löndum, sem voru að jafna sig eftir heimsstyrjöldina. Uppskurður á þjóðfélaginu varð að bíða viðreisnarstjórnarinnar.

Að undanförnu hafa ríkisstjórnir í öðrum löndum verið að taka tímamótaákvarðanir um aðild að fjölþjóðlegum efnahagssamtökum og um að breyta þjónustu- og skattamynztri til samræmis við breyttar áherzlur og minni getu til að standa undir fyrra velferðarkerfi.

Þannig hafa til dæmis Norðurlönd reynt að taka þátt í Evrópu og breyta kostnaði við innviði þjóðfélagsins til að tryggja framtíðarstöðu sína. Ekkert slíkt hefur verið reynt hér á landi, enda virðist aftur komin til valda sú hugsun, að erlendar formúlur gildi alls ekki hér.

Almennt voru Íslendingar þeirrar skoðunar fyrir viðreisn, að reglur þjóðfélagsins ættu að vera aðrar hér á landi en í nálægum löndum. Hér ættu að vera höft og bönn, meðan frelsi gæti átt við annars staðar. Það kom fólki á óvart, að viðreisnin gat breytt þessu.

Íhaldssemi ríkisstjórnarinnar fellur að sjónarmiðum íhaldssamrar þjóðar, sem er vön að búa ein að sínu úti í hafi og hefur enga trú á útlendum hagfræðikenningum, allra sízt þeim, sem lykta af frjálshyggju af einhverju tagi, pólitískri, efnahagslegri eða atvinnulegri.

Hér vill fólk ekki taka þátt í Evrópusambandinu. Hér vill fólk ekki fara eftir undirrituðum samningum um fjölþjóðlegt viðskiptafrelsi. Hér vill fólk ekki hætta ríkisrekstri landbúnaðar. Hér vill fólk varðveita kvótana. Hér vill fólk hafa hlutina eins og þeir hafa alltaf verið.

Ríkisstjórnin og þjóðin vilja ekki vinna fyrir nýrri viðreisn þjóðfélagsins í stíl nágrannaþjóðanna, heldur bíða að hefðbundnum, íslenzkum hætti eftir nýjum happdrættisvinningum á borð við blessuð stríðin. Nú hefur menn um skeið dreymt um ný álver og stækkun álvera.

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er káfað í vandamálin án þess að takast á við þau. Farnar eru sparnaðarleiðir, sem eru þess eðlis, að þær hafa að fyrri reynslu tihneigingu til að mistakast og leiða til aukins halla á fjárlögum. Og skattar hækka enn einu sinni.

Þetta þætti léleg frammistaða í nágrannalöndunum. Hér á landi mun hins vegar ríkja friður, af því að plástrar ríkisstjórnarinnar eru í samræmi við íhaldssaman vilja þjóðar, sem telur embættismennsku í kerfinu vera æðra þróunarstig en athafnaþrá utan þess.

Ríkisstjórnin er nær eingöngu skipuð fólki, sem enga eða nærri enga reynslu hefur af viðskipahlið atvinnulífsins. Hún er skipuð fólki, sem hefur nærri alla starfsævi sína verið á launum hjá hinu opinbera. Ráðherrarnir eru fyrst og fremst embættismenn og alls engir athafnamenn.

Einhvern tíma munu íhaldsstíflur stjórnar og þjóðar bresta og ný viðreisn koma okkur aftur í samband við nútímann. En það gerist ekki á þessu kjörtímabili.

Jónas Kristjánsson

DV