Gamalreyndir fararstjórar hafa orðið

Hestar

Eiðfaxi hefur talað við nokkra gamalreynda fararstjóra í löngum hestaferðum um, hvernig ferðadagarnir séu skipulagðir. Svör nokkurra þeirra birtast hér í opnunni og á næstu opnu. Svör annarra munu birtast síðar í Eiðfaxa.

Með þessum greinaflokki er Eiðfaxi að dreifa þekkingu úr reynslubrunni liðinna áratuga til almennra hestamanna, sem ekki hafa enn öðlast þessa reynslu. Mikilvægt er að leita víða fanga, því að skipulag hestaferða er ekki orðin slík fræðigrein, að einn maður búi yfir öllum sannleika. Hins vegar er samanlögð reynsla þessara manna ómetanleg heimild.

Búinn að grandskoða kortin

Ólafur B. Schram:

Dagurinn byrjar með fundi kvöldið áður, þar sem farið er yfir leið morgundagsins og rætt, hvernig menn geti skipt hestum sínum á leiðina eftir aðstæðum, og ennfremur rætt um annað, sem menn kæra sig um að fá að vita. Þá heldur einn ferðafélaganna fyrirlestur um landafræði, jarðfræði, sagnfræði, þjóðfræði og persónufræði svæðisins. Um kvöldið eru einnig kannaðir fætur á hestunum og lagaðar járningar, ef á þarf að halda.

Ef dagleiðin er 40 kílómetrar yfir torleiði, vil ég fara í hnakkinn klukkan níu, annars alls ekki seinna en klukkan tíu og vil að staðið sé við brottfarartímana. Ég vil vera kominn í náttstað í síðasta lagi klukkan fimm-sex. Teygjan í deginum er fyrripartinn, en ekki seinnipartinn. Menn mega nota áfengi eins og þeir vilja, en þeir mega ekki láta sjá á sér.

Yfirleitt er fararstjórinn í forreiðinni. Hann verður að haga áföngum eftir landinu og aðstæðum í ferðahópnum. Hann þarf að finna á sér líðan fólks og hesta. Fólk og hestar geta þreytzt af tilfallandi orsökum, til dæmis ef menn hafa þurft að hleypa fyrir hross.

Ég vil stoppa eftir kortérs til hálftíma reið að morngi, svo að klárarnir geti kastað af sér vatni. Á fyrsta degi vil ég skipta um hesta á klukkutíma fresti, en síðar í ferðinni á 15-20 km fresti. Ef ég er einn, vil ég fara um 60 km á dag, en ekki meira en 35 km, ef ég er með öðrum. Þegar ég fór við þriðja mann hringinn umhverfis landið, voru þetta 60, 80 til 120 km dagar. Í öllum tilvikum vil ég vera með fjóra hesta og nota þrjá, en gefa einum frí þann daginn. Auðvitað eru þetta allt meginlínur, sem ég verð svo að sveigja frá eftir aðstæðum.

Við förum rólega af stað og gætum þess, að í hverjum áfanga séu einhverjir á reyndum klárum til að taka að sér að ríða fyrir hross og fara í aðrar reddingar. Oft byrja menn í forreið til að fara í fyrirstöður og fara síðan í eftirreið að því loknu eða koma aftur í forreiðina, ef þörf er á því. Eftirreiðin fylgist með helti og lausum skeifum. Sjálfur á ég ekki písk og slæ aldrei hest, en viðurkenni, að þægilegt er að hafa písk til að rétta út til að hindra lausan hest í að fara framúr.

Við erum alltaf nokkrir í hópnum með 20 metra bút af fánasnúru til að slá utan um hrossin í áningu. Þetta er til mikilla þæginda, þegar skipt er um hross. Þegar búið er að gefa áningarmerki í forreið, fara tveir-þrír eftirreiðarmenn meðfram hrossunum út á hlið til að loka hringnum betur. Svo fara allir á snúruna og einn skiptir í einu um hest. Allir eiga að gera strax það, sem þeir þurfa að gera.

Svo gefur fararstjóri merki um, hvenær eru þrjár mínútur í jæja, sem er merki um, að allir fari á bak í einu. Ekki má fara af stað fyrr en allir eru farnir á bak. Og alltaf verður að skilja einn eða tvo eftir hjá þeim, sem lokar hliðum, svo að hann eigi hægara með að komast á bak.

Þegar ég er einn á ferð, er ég ýmist á undan eða eftir. Það fer eftir því, hvort hrossin sækja fram eða slóra. Víðast er hægt að fara eftir slóðum. Ef ég er á eftir, kalla ég í forustuhestinn, ef hann velur ranga leið, og þá færir hann sig yfir á rétta leið. Yfirleitt finna þeir beztu leiðina. Þetta eru vanir hestar, sem ég er með. Einn þeirra er forustuhestur og annar er vara-forustuhestur. Báðir skilja þeir hljóðmerkin, sem ég gef. Þess vegna þarf ég ekki að þvælast fram og aftur.

Stundum erum við með staðkunnugan leiðsögumann, ef ég þekki ekki leiðina, sérstaklega í byggð eða þegar við höldum kyrru fyrir og viljum skoða nágrennið. Hins vegar leyni ég því ekki, að mínar skemmtilegustu stundir eru, þegar ég fer á undan hópnum og kanna ókunnugar slóðir til að finna, hvar bezt er að fara. Ég er auðvitað áður búinn að grandskoða kortin og sérstaklega hæðarlínurnar. Við þessar aðstæður er ég njósnari, landkönnuður, indjáni, allt þetta skemmtilega.

Ég nota ekki hjálpartæki við að rata rétta leið. Ég er að vísu með kompás, en hef aldrei notað hann, enda hefur hann takmarkað gildi, þegar finna þarf hlið eða vöð. Ég nota ekki staðsetningartæki, enda sé ég ekki, hvað menn með slík áhugamál hafa að gera á hestum. Þeir eiga bara að fá sér bíl.

Ef þoka skellur á og við erum á ókunnu svæði, stöðva ég hiklaust reksturinn og held kyrru fyrir heldur en að æða út í óvissuna. Ég sat einu sinni um kyrrt í fjórtán tíma á Hlöðuvöllum. Í sumum tilvikum getur maður komizt í næturstað með því að fylgja krókóttum slóða í stað þess að stytta sér leið, eins og maður hefði gert í góðu skyggni.

Skemmtilegra að reka en teyma

Hjalti Gunnarsson:

Þegar ég er ekki með ferðamenn, heldur í hópi kunningja, sem hafa ferðazt mikið saman, er lítið um formfasta verkaskiptingu. Við reynum að hafa bara ein járningatæki, því að óþarfi er að íþyngja hestunum með því að hafa mörg slík. Við reynum að deila skeifunum milli fólks. Stundum reiðum við með okkur heila girðingu með lítilli vasastöð.

Sjálfur er ég yfirleitt með písk, því að mér finnst ég annars vera handalaus í rekstri. Ég týni ekki pískum, af því að ég sting þeim í kenginn framan á hnakknum. Helzt vil ég hafa pískinn hvítan, svo að lausu hrossin sjái hann vel og agti hann betur.

Mér finnst skemmtilegra að reka en teyma. Við sumar aðstæður er þó heppilegra að teyma, til dæmis þegar ætlunin er að geta stanzað hvar sem er og skoða áhugaverða staði. Í rekstri er gott að láta lausu hrossin ráða ferðinni sem mest. Eftirreiðin má ekki fylgja of fast eftir, nema lestin sé farin að slitna. Hjá vönu fólki er þegjandi samspil milli forreiðar og eftirreiðar um áreynslulausan rekstur.

Í tvö sumur hef ég notað vasatalstöðvar milli forreiðar og eftirreiðar og finnst þær þægilegar. Þær ná 2-3 kílómetra. Svo er ég með NMT-vasasíma, sem ná því miður ekki sambandi víða á Kili jafnvel þótt farið sé upp á hóla. Öll slík tæki eru til mikils öryggis og það er ólíðandi að ekki skuli vera símasamband á svo fjölfarinni leið.

Reglur eru fáar en ákveðnar. Mikilvægast er að hafa notkun víns í lágmarki yfir daginn, áður en komið er náttstað. Bezt er raunar, að hún sé engin, meðan menn eru á hestbaki. Flestir nota hjálma núorðið, en við höfum ekki gert það að skilyrði. Ég vil helzt fara fremur seint af stað, helzt ekki fyrr en um hádegi, ef veður er þurrt og gott og dagleið ekki löng. Mér finnst hestar hvílast vel á tímanum frá kl.10 til 12.f.h.Þá liggur nánast hver einasti hestur.

Á ferðalagi gef ég alla heygjöfina í tveimur hlutum að kvöldi og ekkert að morgni. Þá eru hrossin oft í þann veginn að klára miðnættisgjöfina. Ég vil heldur, að hrossin leggist að morgni og hvílist fyrir ferðadaginn. Ég vil svo ekki gusast af stað, heldur leyfa hrossunum að leka úr gerðinu og taka niður á rólegu rölti, áður en farið er upp á fullan ferðahraða.

Notaleg dagleið er fimm-sex reiðtímar, 30-40 kílómetrar. Fólk, sem er að ferðast sér til skemmtunar, ætti að miða við, að hafa þetta ekki mikið meira. Fjarlægðir milli skála ráða því þó oft, hvað dagleiðir verða langar.

Ég fylgist vel með ástandi hrossa. Yfirleitt er ég í forreið, en stoppa stundum og fer til hliðar til að fylgjast með fótum hrossa. Ég læt reksturinn líða fram hjá mér og horfi aftur undir hrossin og sé undir alla fætur. Ég sé helti, heyri glamur og sé, ef skeifa er farin. Þetta þarf að gera öðru hverju. Eftirreiðin þarf að fylgjast með þessu á sama hátt frá sínu sjónarhorni. Svo stend ég oft við hliðið, þegar hross fara inn í áningarhólf, og þarf þá ekki að rölta um hólfið á eftir til að skoða fætur. Þá sé ég, hvort steinn sé fastur í hófi. Ég lyfti ekki upp fótum, nema af gefnu tilefni. Svo lít ég á fætur, þegar hrossum er gefið í náttstað.og brýni fyrir ferðafélugunum að hafa augun hjá sér.

Ég slæ alltaf bandi utan um hópinn í áningu og bý til lokað hólf, ef ætlunin er að skipta um hesta. Fólk þarf að dreifa sér á línuna. Og standa innan við línuna og hafa hana fyrir aftan bak. Ef hestur stekkur á línuna. Síðan skiptast menn á, þannig að fáir séu að taka hesta í einu, helzt ekki nema tveir. Annars er hætt við, að hestar styggist og skiptingin verði óþægilegri. Alltaf þurfa að vera tveir tilbúnir hnakkhestar til taks. Ef veður er vont, er stundum heppilegt að fleiri séu að skipta í einu. Þá er gott að menn taki með sér hestinn inn í hólfið og sleppi honum ekki fyrr en þeir hafa náð nýjum hesti. Við þær aðstæður hafa allir hest, ef stóðið springur. Ekki er gott að verða hestlaus í vondu verði. Passa verður að hafa hlið á línunni til að teyma hest í gegn,aldrei má teyma hest undir eða yfir línuna, því þá hætta þeir að bera virðingu fyrir henni.

Mikla aðgát þarf á vöðum jökulfljóta, einkum út af sandbleytum, til dæmis í Ströngukvísl. Ég reyni að sjá af straumfallinu, hvar eru lygnur, sem beri að forðast vegna sandbleytu, og hvar er skrúfustraumur, þar sem búast má við djúpum ál. Ég reyni að finna stað með jöfnum straumi, helzt á broti. Fyrst þarf einn að kanna vaðið, áður en flotinn leggur í ána. Oft leita lausu hrossin neðar og neðar, svo að eftirreiðin fer of neðarlega, ef hún hefur ekki lagt vaðið á minnið.

Leyfum
þeim að
lesta sig

Árni Ísleifsson:

Mér finnst gott að vera kominn af stað um kl. 10 á morgnana. Ef eitthvað er að veðri, er gott að hafa daginn fyrir sér. Ég held líka að það sé gott fyrir hestana að vera búnir að jafna sig fyrir sárasta kvöldkulið.

Ég teymi lítið og er mest með rekstur. Mikilvægt er, að eftirreiðin sé ekki með mikil læti, heldur leyfi hestunum að lesta sig, helzt í einni götu. Ef of hart er rekið, hrökkva hross úr götu, þau fara að bíta hvert annað til að verja stöðu sína í lestinni. Þau þreytast minnst, ef þau lesta sig vel. Raunar er þægilegast að láta lausu hrossin ráða ferðinni sem mest.

Ég nota písk, til dæmis til að hafa hemil á einstaka hesti, sem hefur þá áráttu að reyna að sækja fram úr forreiðinni. Ég man eftir tveimur hestum, sem voru afleitir saman í heilli ferð, svo að við þurftum að haga svo til, að alltaf væri öðrum þeirra riðið, þá var hinn til friðs.

Ég slæ rafmagnsspotta utan um hópinn í áningu. Síðan skiptast menn á um að taka hesta í rólegheitum. Svona spottar eru til mikilla þæginda. Hestar eru yfirleitt svo rólegir innan bandsins, að það má ganga beint að þeim. Svo fjölgar líka skiptihólfum, sem eru til mikilla bóta, því að þar slaka menn og hestar sér betur niður. Svona skiptihólf þurfa að vera með reglubundnu millibili á fjölförnum langleiðum, svo sem Kili.

Kvölds og morgna þarf að líta yfir hrossin í náttstað, lyfta fótum, þreifa á sinum og skoða járningar. Eftirreiðin þarf að fylgjast með skeifum og helti.

Ef ég er að fara nýjar slóðir, skoða ég bækur og kort. Yfirleitt hef ég einhvern kunnugan með mér. Mest fer ég slóðir, sem ég þekki vel. Ef ég hef farið einhverja leið einu sinni í björtu, er ég nokkuð öruggur um að rata hana aftur. Ef þoka skellur á og lítið er um kennileiti, er bezt að bíða og missa ekki rósemina. Ef ekki er gata til að fylgja, geta menn lent í að ríða í hringi.

Þingmannaleið hæfileg

Andreas Bergmann:

Áður fyrr voru dagleiðirnar of langar, 50-70 kílómetrar. Mér finnst gott að fara þingmannaleið, 36 kílómetra á dag, ef þannig stendur á skálum. Við förum oft ekki af stað fyrr en um hádegið og erum þá fimm-sex tíma í hnakknum. Af illri nauðsyn eru dagleiðirnar stundum lengri, til dæmis yfir Sprengisand. Þá vil ég fara fyrr af stað. Ég hef trú á því, sem Pálmi Hannesson sagði, að ekki sé gott að rífa ferðahesta upp snemma á morgnana, að minnsta kosti ekki fyrir klukkan átta. Yfirleitt er gott að fara af stað milli klukkan tíu og tólf og þá er líka gott, að menn hafi farið til kojs fyrir miðætti.

Fararstjóri hverrar ferðar þarf að leggja samferðamönnum sínum línurnar. Gott er að byrja á morgnana á styggum hesti, sem erfitt er að taka við slæmar aðstæður. Gott er líka að byrja fyrst á yngri hestunum og gefa þeim svo frí seinni part dagsins. Á morgnana þarf að stanza eftir hálftíma til að leyfa hestunum að pissa og til að herða gjarðir.

Þegar komið er í áningu, þarf fólk að dreifa sér hringinn, en hnappa sér ekki saman til að spjalla. Mikilvægt er, að það sé ekki að hlaupa strax inn í hringinn til að ná sér í hest, heldur gefa hrossunum frið til að hvíla sig. Gott er að hafa hringinn stóran í fyrstu, svo að hestarnir hvílist vel, þrengja síðan hringinn og leggja út band, þegar á að fara að taka. Þá vinni menn saman við að ná í nýja hesta og séu alltaf með hugann við lausu hestana. Allir verða að taka þátt í að passa þá. Alltaf þurfa að vera við hendina hnakkhestar, því að einn hestur getur skyndilega fengið það, sem Páll heitinn Briem kallaði öræfabrjálæði, og dregið allan hópinn með sér út í buskann.

Mikilvægt er að standa vel að rekstrinum yfir daginn. Fólk þarf að vera sér meðvitað um á morgnana, sérstaklega fyrsta daginn, að hrossin koma úr ýmsum áttum og hafa ekki enn samlagazt. Sum hross vilja taka sig úr hópnum og stökkva til baka. Þá þurfa að vera vel ríðandi menn í eftirreið og hafa eitthvað í hendinni. Písklausir menn eru ekki nema hálfir við slíkar aðstæður. Sama gildir um forreiðina, einkum í síðari hluta ferðar, þegar hópurinn nálgast byggð og sum hross fara að þrýsta á forreiðina. Vel ríðandi og vanur maður með písk getur leikið sér að því að halda hundrað lausum hestum fyrir aftan sig. Þó finnst mér betra, að tveir eða þrír séu í forreið.

Eftirreiðin er yfirleitt fjölmennari og þarf að fylgjast vel með glamri í skeifum og skeifuleysi í rekstrinum og sjá, hvenær hestur hefur fengið stein í hóf. Í áningum þarf svo hver fyrir sig að líta á hófana á sínum hestum og skoða undir þá hesta, sem á að fara að ríða. Í náttstað fer ég út í hestahólfið um kvöldið til að fylgjast með, hvort eitthvað ami að. Á morgnana göngum við svo allir um hópinn og skoðum, áður en við förum af stað. Þá er góður tími til að laga járningar.

Trússjeppann látum við fylgja með rekstrinum, þegar því verður við komið. Hann er með nesti og rafmagnsgirðingu, svo að fólk og hestar geti hvílst betur í áningum. Sums staðar eru komin áningarhólf, svo sem á Fjallabaksleið og Landmannaleið. Það er til mikilla þæginda. Hraðinn á ferðalaginu ræðst mikið af hrossunum og aðstæðum. Það þýðir ekki að ríða eftir klukku, en gott er að ríða í þrjú kortér eða klukkutíma og stoppa í kortér, ef aðstæður leyfa. Áningar með hestaskiptum hafa tilhneigingu til að fara langleiðina í klukkutíma. Svo er líka í lagi að slá hlutunum upp í kæruleysi og hafa langt aukastopp, ef allt í einu hættir að rigna og birtir til á fallegum stað. Sveigjanleiki verður að vera í spilunum.

Byrjað milli girðinga

Viðar Halldórsson:

Mér finnst gott að vera kominn í hnakkinn um klukkan ellefu. Helzt vil ég ekki koma seint í náttstað, ekki seinna en klukkan sjö. Klukkan átta er í það síðasta. Sex tímar eru hæfileg dagleið, svona 35 kílómetrar á dag, ef fjarlægð milli skála leyfir. Ef langar og erfiðar dagleiðir eru í byrjun ferðar, verða hestarnir þreyttir og bera þess merki alla ferðina.

Í rekstri er gott að haga ferðum þannig, að á fyrsta degi sé byrjað á stað, þar sem þægilegt er að reka, til dæmis milli tveggja girðinga. Það auðveldar okkur að venja hestana við að halda hópinn og minnkar hættuna á, að við missum þá frá okkur.

Ef farnir eru 40-50 kílómetrar á dag, vil ég að minnsta kosti fjóra fullfæra hesta fyrir mig. Ég tel yfirleitt, að menn komist ekki af með minna en þrjá fullgilda hesta á löngu ferðalagi. Auðvitað er misjafnt, hvað menn mega krefja hesta sína mikið. Menn þurfa að gæta þess, að ganga ekki of nærri hrossunum. Ef hrossin eru farin að svitna upp á lendina, þurfa menn að fara að gæta sín. Ef menn eru í vafa um þol hrossa, er kjörið að taka púlsinn hálftíma eftir stopp. Ef hann er ekki kominn niður í 45 eða lægra, þá er hætta á ferðum.

Gott er að hafa hálftíma í fyrsta stopp á hverjum degi og ríða annars upp undir eða um klukkutíma í áfanga, ef aðstæður leyfa manni að velja. Bezt er að ríða með jöfnum hraða á góðri milliferð og stoppa stutt í áningu, sérstaklega ef dagleið er löng. Lengsti tíminn fer oft í áningarnar og þær þvæla hrossin. Þau þreytast minna, ef þau komast sem fyrst í náttstað.

Fararstjórinn þarf að reyna að stjórna hraðanum. Mikilvægt er að fara ekki of hratt í byrjun dagsins. Mín reynsla er, að of mikill hraði í byrjujn valdi því, að hálfgerður tryllingur verði í lausu hrossunum allan daginn. Forreiðarmenn þurfa oft að veifa pískum til að hamla framsæknum hrossum.

Gott er, að eftirreiðin hafi svo sem þrjár eða fjórar hestlengdir í síðustu hestana, enda er þá minni hætta á, að hross springi úr lestinni og menn þurfi að elta þá.

Menn þurfa að skipta sér í tvo hópa fyrir framan og aftan. Þeir, sem eru á mjög viljugum hesti, eru betur settir fyrir framan, en hinir fyrir aftan, sem eru á fremur rólegum hesti. Báðir hestarnir verða þægilegri með þannig skiptingu. Að öðru leyti er gott að menn skiptist tiltölulega jafnt í forreið og eftirreið og taki allir þátt í rekstrinum.

Allir þurfa að vera með á nótunum, þegar áð er. Þá þarf að raða sér vel umhverfis hrossin og gæta sérstaklega að þeim kantinum, þar sem hestarnir sækja á. Ótal sögur eru af því, að menn hafa ekki staðið nógu vel að hrossunum, hafa misst þau frá sér á fulla ferð. Þá þurfa menn að vera sérstaklega vel ríðandi til að komast fyrir þau.

Gott er að hafa borða eða línu í ferðinni til að ná hrossum í áningu. Ég vil, að hestarnir séu fyrst látnir í friði dálítinn tíma áður en farið er að ná þeim. Það verður meiri spenna í hrossunum, ef strax er farið að atast í þeim. Betra er að róa þau niður fyst, þá gengur allt betur.

Á leiðinni er skynsamlegt að venja sig á að líta undir hestana fyrir framan sig til að sjá, hvort þeir hafi misst skeifur. Í áningarstöðum fara nokkrir og kíkja á hópinn til að gá, hvort skeifa sé farin. Þegar menn taka hesta, er gott að lyfta fæti til að sjá, hvort steinn hafi farið undir hófinn. Til að losa þá eru notaðir litlir krókar, sem fara vel í vasa. Við sama tækifæri þarf að strjúka niður fæturna til að skoða, hvort þeir séu farnir að bólgna og hvort allt sé í lagi. Stundum er ég með kælikrem og ber í náttstað á þá fætur, sem mér finnst vera viðkvæmir.

Lausu
hrossin ráða
ferðinni

Haraldur Sveinsson:

Í fyrstu ferðunum var lítið um girðingar eða gerði í áningarstöðum. Við heftum þá hestana og skiptumst á um að vaka yfir þeim. Ég á enn mjúk og fín leðurhöft, en áratugir eru síðan ég notaði þau.

Lítið hefur verið um formlega fararstjórn eða reglur í ferðunum. Þetta hefur mest gengið af sjálfu sér. Björn heitinn flugmaður var oft forreiðarmaður, enda þekkti hann landið vel eftir að hafa flogið ótal sinnum yfir það. Hann kom þeirri reglu á, að áfengi væri ekki notað yfir daginn. Við máttum fá einn snafs að morgni og síðan annan, þegar við sáum til næturstaðarins og vissum, að við mundum komast alla dagleiðina.

Við erum yfirleitt snemma á fótum og förum að huga að hrossunum. Eftir hafragrautinn förum við að taka saman og setja í bílinn. Aldrei er rekið á eftir neinum, svo að yfirleitt er ekki farið af stað fyrr en undir hádegið, nema fyrirhuguð dagleið sé óvenjulega löng.

Við látum yfirleitt lausu hrossin ráða ferðinni. Þau eru orðin vön því að fara á góðri milliferð, ekki með neinum gassagangi. Ég ríð með písk, en nota hann nánast ekkert nema til að ógna hrossum, sem vilja æða fram. Til þess að ég týni honum ekki, læt ég lykkjuna hanga á úlnliðnum.

Hver reynir að passa ástandið á sínum hestum. Ég hef vanið mig á að taka fæturna upp á mínum hestum á hverjum morgni. Járningamenn eru orðnir svo góðir, að sjaldgæft er, að skeifa fari undan hesti.

Ég vil fara hægt af stað að morgni og leyfa hestunum að míga eftir hálftíma. Svo er gott að taka einn eða tvo tíma í hvern áfanga eftir aðstæðum. Yfirleitt eru áfangar ekki skipulagðir fyrirfram, heldur koma af sjálfu sér eftir landinu. Við stöndum kringum hrossin í áningunni, en notum yfirleitt ekki band.

Við erum með góð kort í ferðum, förum yfir þau á kvöldin til að undirbúa morgundaginn. Við notum lítið leiðsögumenn, en höfum oft fengið upplýsingar hjá kunnugum.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 9.tbl. 2003