Gamalt fólk mætir afgangi

Punktar

GÍSLI Sigurbentsson dó einn og yfirgefinn í Bjarnaborg og hafði verið látinn í tvær vikur, þegar menn áttuðu sig. Eins og svo margt gamalt fólk var hann utanveltu í þjóðfélaginu, vingjarnlegur maður, sem átti ekki ættingja á svæðinu.

GAMALT fólk er afgangur í þjóðfélaginu. Á Sólvangi eru sums staðar 20 sentimetrar milli rúma. Þangað kemur fólk úr íbúðum og húsum og fær bara til ráðstöfunar rúm og hillu. Við erum langt frá því markmiði, að hver hafi sitt herbergi.

EFTIR áratug verður ástandið betra. Þá verður þorri fólks búinn að safna sér bærilegum ellilaunum í lífeyrissjóði. Nú eru margir, sem verða að láta sér nægja ellistyrkinn frá ríkinu, sem dugir alls ekki fyrir neinu sjálfstæði í lífinu.

ALLIR þurfa reisn, líka gamla fólkið. Það á ekki að búa við eina hillu undir eigur sínar í sambýli eða að þurfa að deyja í einsemd í eyðimörk borgar, sem vill verða heimsborg og hefur hvorki pláss né tíma fyrir fólk frá liðinni öld.

VIÐ ERUM nógu rík til að brúa bilið fyrir fólk, sem ekki hefur safnað í sjóði eða á erfitt með að nálgast hjálp, sem stendur til boða. Við erum líka nógu fá til að samþykkja, að hver einstaklingur komi okkur við, þótt hann sé utangátta.

HRÆSNIN stjórnar samt gerðum okkar og stjórnmálaflokkanna. Fínir herrar semja ályktanir um skipun velferðarnefnda og fara síðan og rækta ágirndina, sem er orðin sú dauðasynd, sem við ræktum hvað ákafast í hagkerfi hins villta vesturs.

DV