Gamalt gengur aftur.

Greinar

Gamla fjárlagafrumvarpið frá í haust hefur nú gengið aftur á Alþingi eftir nokkra hrakninga. Ekki er langt síðan þingflokkur sjálfstæðismanna barði í borðið og hótaði stjórnarslitum, ef þingflokkur framsóknarmanna féllist ekki á það í þáverandi mynd.

Síðan skutu þingflokkur sjálfstæðismanna og miðstjórn Sjálfstæðisflokksins á frægum fundi í Stykkishólmi. Þar var ákveðið, að frumvarpið væri óalandi og óferjandi. Nauðsynlegt væri að skera það niður við trog til að stöðva skuldasöfnun í útlöndum.

Til frekari áherzlu skipti þingflokkurinn á fjármálaráðherrum og gerði sjálfan flokksformanninn að sláturstjóra í ráðuneytinu. Niðurstaðan er samt sú, að lítillega hefur verið kroppað í frumvarpið, en í stórum dráttum, rúmlega 99%, er það enn óbreytt.

Eini markverði niðurskurður opinberra útgjalda er frestun framkvæmda við Blönduvirkjun um eitt ár til viðbótar við árið, sem fyrri útgáfa frumvarpsins fól í sér. Þetta sparar mikið fé, 250 milljónir króna á næsta ári. Þannig eru menn smám saman að láta orkuvímuna renna af sér.

Næststærsti liðurinn er Þróunarfélagið, sem á að fá 50 milljónum minna en áður var gert ráð fyrir. Þar með er nokkurn veginn tryggt, að andvana er fædd sú hugsjón ríkisstjórnarinnar. Hún hefur svo mikinn kostnað af gömlum atvinnugreinum, að hún hefur ekki efni á nýjum.

Ekki er gerð hin minnsta tilraun til að hreyfa við sumum dýrustu þáttum ríkisútgjalda, svo sem ríkisrekstri hins hefðbundna landbúnaðar og vegagerð, sem komin er út í alvarlegar hugleiðingar um brúun ósa í kjördæmi fjármálaráðherra og borun gata í ýmis fjöll.

Ofangreindir tveir niðurskurðarliðir eru raunar utan frumvarpsins eins og það er sett fram. Innan þess eru smámunir á borð við fjórar milljónir af Þjóðarbókhlöðu, fimmtán af Listasafni Íslands, fimm af Háskólanum og sex af Raunvísindastofnun, – aðallega til að sýna hugarfarið.

Marklítið er að slengja fram niðurskurði almenns rekstrar ríkisins um 170 milljónir vegna samdráttar í risnu, ferðalögum og öðru slíku. Sjálfsagt er að trúa þessu strax og tekið er á því, en ekki deginum fyrr. Við höfum séð of mörg loforð af því tagi.

Ánægjulegt er, að fjármálaráðherra og ríkisstjórnin skuli hafa uppgötvað, að Póstur og sími sé 160 milljónum ríkari en áætlað var fyrir mánuði. Slíkar uppfinningar hafa þó hingað til fremur lyktað af bókhaldsbrögðum en af raunverulegum fjársjóðsfundi.

Og eftirtektarvert er, að fjársjóðsfinnendur skuli ekki hafa áttað sig á, að húsnæðisgeirann vantar meira en 1000 milljónir til að standa við kosningaloforð, sem stjórnarflokkarnir gáfu á sínum tíma og hafa margítrekað síðan, meðal annars síðastliðið vor.

Dæmigert fyrir hina nýju útgáfu gamla frumvarpsins er, að ráðherrar finna með röntgenaugum þægilegu atriðin, en eru alveg blindir á hin óþægilegu. Þess vegna er frumvarpið jafnmarklaust og það var í fyrri mynd, ónothæft með öllu til þess brúks sem því er ætlað.

Frumvarpið mun auka skuldir hins opinbera í útlöndum um að minnsta kosti 1600 milljónir króna, stækka opinbera geirann og efla verðbólguna vegna skorts á jafnvægi opinberra fjármála. Það stendur ekki við eina einustu af forsendunum, sem birtast í inngangi þess.

Jónas Kristjánsson.

DV