Gamla og góða Ísland á BSÍ

Veitingar

Notalegt er að koma á Ferðakaffi á BSÍ. Svið og kjötsúpa að íslenzkum hætti, fleskisteik að dönskum hætti, kótilettur mömmu, saltkjötsragú, nautagúllas með kartöflustöppu og fleira slíkt. Allt er þetta íslenzkt. Ekkert reynt að lagast að erlendum smekk ferðamanna. Kjötsúpa og svið voru fín í gærkvöldi. Aðalréttir kosta um 1600 krónur, fela í sér súpu, salatbar, kaffi. Stíllaus staður með samtíningi húsgagna ýmissa tíma. Ekkert er nýlegt í þessu musteri fortíðarinnar nema internet-tölvurnar. Gamlar rútumyndir skreyta veggina. Þetta er gamla og góða Ísland, fyrir daga útrásarbanka og útrásarvíkinga.