Gamla og nýja skyrið

Punktar

Gamla skyrið var matur, þungur matur fyrir útivinnandi fólk við vosbúð. Svo kom nýja skyrið, léttur og sætur eftirréttur. Er raunar ekki skyr í hefðbundnum skilningi, en hefur slegið í gegn. Útrás hins íslenzka skyrs er útrás þessa sæta og létta eftirréttar. Raunar er það rosalega gott, til dæmis í útfærslu Matar og drykkjar í Sögusafninu. Í eftirrétt mæli ég með slíku skyri, frekar en gamla skyrinu í útfærslu Friðriks V. Ég virði gælur Friðriks við gamlar hefðir. En gamla skyrið var og er þungur matur, ekki léttur eftirréttur. Vona, að gamla skyrið fáist áfram, en vel mér hiklaust nýja skyrið, sem flestum líkar betur.