Gamlaeyri

Hringleið frá Snorrastöðum í Hnappadal yfir Saltnesál og um Gömlueyri.

Þessi leið er eingöngu fyrir hestamenn, því að of fljótt fellur að og nýtist ekki göngufólki. Hestar fást leigðir á Snorrastöðum.

Saltnesáll er erfiðasta vatnsfall á Löngufjörum og hættulegastur ferðamönnum, því að vöð eru breytileg. En hann er mjór, svo að sullast má yfir hann á sundi, ef ekki vill betur. Saltnesáll kemur úr lindum í Eldborgarhrauni. Hér reið Þórður kakali 1242 á flótta undan Kolbeini unga, svo sem segir í Sturlungu, og slapp yfir Saltnesál áður en flæddi að. Gamlaeyri var áður þekktur rekastaður og mörg skip hafa strandað þar á síðustu öld, einkum erlend fiskiskip. Þar á meðal tvær franskar skútur árið 1870. Eyrin er fimm kílómetra langur skeiðvöllur.

Förum frá Snorrastöðum niður með Kaldá að vestanverðu og síðan aðeins til vesturs með fjörunni, áður en við förum út á hana. Förum skammt utan við yztu tanga til vesturs unz við komum að Saltnesál. Algengast er að fara yfir hann 50-100 metrum frá landi. Hér hafa orðið slys á hestum og stundum legið við slysum á fólki. Einnig er hægt að krækja upp í landið fyrir álinn og fara þá varlega milli pytta. Þegar við erum komin vestur yfir álinn, förum við beint til suðurs vestan við Öskjugrasey og alla leið suður á Gömlueyri. Við förum yfir á eyrina sjávarmegin og síðan eftir henni endilangri til norðvesturs eins langt og við viljum. Að því búnu förum við aftur til lands, venjulega til norðausturs í átt að Viðarhólma. Stefnum svo til austurs á Saltnesál, förum yfir hann á sama stað og áður og síðan sömu leið til baka í Snorrastaði.

22,3 km
Snæfellsnes-Dalir

Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Snorrastaðir: N64 46.558 W22 17.969.

Nálægir ferlar: Saltnsáll, Hítará, Múlavegur.
Nálægar leiðir: Skjólhvammsgata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson