Of snemmt er að skrifa minningargreinar um hefðbundna fjölmiðla. Nýmiðlunin hefur sótt að þeim, en bloggið stenzt þó engan samjöfnuð við fréttir hinna hefðbundnu. Helztu afrek í rannsóknablaðamennsku er enn unnin á gömlu, góðu stöðunum. Og ekki í minna mæli en var fyrir svo sem áratug, þegar þeir höfðu meira umleikis. Gott að rifja þetta upp, þegar líður að árlegum verðlaunum fyrir blaðamennsku. Helzt hefur stíllinn látið á sjá í tímans rás. Útkoman er í auknum mæli birt í stirðum langhundum, sem stundum ná yfir nokkra daga. Væri stíllinn styttri, væri hann skýrari og meira spennandi. Næði athygli.