Ákvörðun Alusuisse-Lonza um stækkun Ísals er óneitanlega töluverður léttir. Hún hefur ekki aðeins áhrif á þjóðarhag, heldur einnig á þjóðarsál. Hún dregur úr þeim ugg, að Ísland sé orðið slíkur kyrrstöðupollur, að enginn vilji fjárfesta hér, ekki einu sinni út á lágu launin.
Talið er, að það kosti tólf milljarða króna að stækka álverið í Straumsvík og að nokkur hundruð manns muni starfa við bygginguna. Það mun um skeið efla atvinnu á Suðvesturlandi og einkum verða lyftistöng í byggingaiðnaðinum, sem hefur verið að veslast upp að undanförnu.
Þungu fargi er létt af Landsvirkjun og okkur eigendum hennar, því að stækkun Ísals leiðir til aukinnar orkusölu um 900 gígawattstundir á ári. Sú er einmitt umframorkan, sem hefur verið ónotuð, síðan lokið var við Blönduvirkjun. Og nú verður raunar hægt að virkja meira.
Langtímaáhrif í atvinnumálum verða minni. Þegar stækkun álversins er lokið, munu aðeins 70 manns starfa þar til viðbótar við þá, sem fyrir eru. Álver eru ekki þess eðlis, að rekstur þeirra skapi mikla vinnu. Þess vegna frestar stækkun Ísals bara atvinnukreppunni.
Okkur veitir ekki af þessum létti. Undanfarin misseri hefur fjölgað þeim, sem missa trú á kyrrstöðupolli Íslands og leita sér að atvinnu úti í heimi, þar sem laun eru tvöföld íslenzk laun. Fólk hefur í auknum mæli orðið þreytt á endalausu basli lífsbaráttunnar á Íslandi.
Á laugardaginn birtust hér í blaðinu viðtöl við fiskverkafólk, sem flutzt hefur til Hanstholm í Danmörku, hefur þar meira en 1.000 krónur á tímann, kaupir sér einbýlishús og býr við félagslega velferð, sem er langt umfram þá, sem komið hefur verið á fót hér á landi.
Fólkið í Hanstholm á tæpast orð til að lýsa mismuninum á Danmörku og Íslandi. Fjárhagslegar áhyggjur hafa horfið eins og dögg fyrir sólu og fólkið segist meira að segja hafa efni á að eignast börn. Það velur misheppnuðum þjóðarleiðtogum Íslands fremur ófögur orð.
Íslendingarnir segjast hafa flúðið spillingu og fátækt á Íslandi, skrípaleik og skuldasöfnun, virðingarleysi og öryggisleysi, og leitað á náðir manneskjulegra þjóðfélags, sem veiti vinnufúsu fólki góðar tekjur. Þeir segjast nú hafa oftar en áður ráð á að fara til Reykjavíkur.
Ísland er ekki vont við alla. Það er gott við sæmilega stæða og miðaldra Íslendinga, sem hafa komið sér fyrir í lífinu. Það er hins vegar vont við unga fólkið og alla þá, sem þurfa á brattann að sækja í lífinu. En það eru hinir fyrrnefndu, sem stjórna kyrrstöðunni á Íslandi.
Meirihluti Íslendinga er sáttur við kyrrstöðuna og vill brenna milljörðum króna á hverju ári til að varðveita búsetu um allt land, jafnvel þótt það kosti þjóðina mikla skatta, hátt matarverð og lág laun. Þessi íhaldssami meirihluti telur sig samt vera ofan á í lífinu.
Hér á landi vantar pólitískan vilja til að brjóta hlekki fortíðarinnar og sækja inn í framtíðina, skipta út atvinnuvegum og taka þátt í Evrópusambandinu. Hér vilja menn helzt að ekkert gerist, af því að það raskar sem minnst ró þeirra. Þetta er dæmigerður kyrrstöðupollur.
Stækkun Ísals leysir ekki þennan vanda. Hún getur jafnvel leitt til, að landsfeðurnir telji sér fremur en ella óhætt að halda áfram að gera ekki neitt annað en að stunda ferðalög. Þeir kunna að vilja telja sér trú um, að efnahagsvandinn hafi verið leystur í Straumsvík.
Megináhrif fréttarinnar um stækkun Ísals eru þó önnur og betri. Þau endurvekja þá tilfinningu, að eitthvað sé að gerast, að gárur séu komnar á kyrrstöðupollinn.
Jónas Kristjánsson
DV