Gatakíttið er misdýrt

Greinar

Til viðbótar við falsanir og óskhyggju upp á 1845 milljónir króna í fjárlögum ríkisins fyrir þetta ár koma 700-800 milljón króna falsanir og óskhyggja í lánsfjáráætlun ríkisins, sem enn er til afgreiðslu á alþingi.

Samtals gæti því gat ársins numið um 2600 milljónum króna til viðbótar um 1200 milljón króna gati frá árinu í fyrra. Af þessum hrikalegu tölum má vera ljóst, að engin vettlingatök duga og engar kýr mega lengur vera heilagar.

Auðvitað hefði verið þægilegra að leggja niður styrki, uppbætur og niðurgreiðslur til hvatningar á offjárfestingu í hefðbundnum landbúnaði og á offramleiðslu á kjöti og mjólkurvörum, þegar allt lék í lyndi og röskunina mátti milda.

En á þessu ári er hin nakta staðreynd sú, að á fjárlögum er ráðgert að verja 1.500 milljónum til að styrkja landbúnaðinn. Öll sú upphæð er ekki aðeins óþörf, heldur er hún beinlínis skaðleg, andstæð lífshagsmunum þjóðarinnar.

Fleiri heilagar kýr eru á fjárlögum, þótt engin sé eins hrikaleg í sniðum og landbúnaðurinn. Sem dæmi má nefna 13 milljón króna styrk til sorprita stjórnmálaflokkanna og 230 milljónir til að hamla gegn orkuþróun í húshitun.

Ekkert bendir til, að ríkisstjórnin treysti sér til að létta heilögu kúnum af ríkissjóði. Ekkert bendir til, að hún treysti sér til að lækka útgerðarkostnað heimilanna með því að leyfa frjálsa verzlun með búvöru á heimsmarkaðsverði.

Þegar ekkert má gera, sem skynsamlegt getur talizt, stendur ríkisstjórnin auðvitað andspænis hugmyndum, sem kalla á skattahækkun, skuldaaukningu í útlöndum, verðbólgu í kjölfar seðlaprentunar og hrun sjálfseignarstefnu í húsnæði.

Skjaldborgin um heilögu kýrnar veldur því, að ríkisstjórnin neyðist til að hækka skatta á borð við benzíngjald, áfengis- og tóbaksgjald, svo og að finna upp nýja á borð við sjúkratryggingagjald, og loks að hækka skattstiga.

Með slíkum aðgerðum er unnt að minnka gat ársins. En um leið er ríkisstjórnin komin í fremstu röð þeirra ríkisstjórna, sem mest hafa hækkað skatta á stytztum tíma. Og hún er þó ekki búin að sitja í heilt ár enn.

Skjaldborgin um heilögu kýrnar veldur því, að ríkisstjórnin neyðist til að taka erlend lán og auka skuldabyrðina gagnvart útlöndum í meira en 60% af árlegri þjóðarframleiðslu, sem allir vita, að er stórhættulegt.

Með slíkum aðgerðum er unnt að minnka gat ársins. En um leið er ríkisstjórnin komin í fremstu röð þeirra ríkisstjórna, sem mest hafa aukið skuldasúpuna á styztum tíma. Og er hún þó ekki búin að sitja í heilt ár enn.

Skjaldborgin um heilögu kýrnar veldur því, að ríkisstjórnin neyðist til að draga stórlega úr fjármögnun húsnæðislánakerfisins og ganga af dauðri þeirri hugsjón, að borgarar þessa lands geti eignazt þak yfir höfuðið.

Með slíkum aðgerðum er unnt að minnka gat ársins. En um leið er ríkisstjórnin orðin Íslandsmeistari allra ríkisstjórna í aðgerðum gegn sjálfsbjargarviðleitni Íslendinga í húsnæðismálum. Og er hún þó ekki búin að sitja í heilt ár enn.

Að svo miklu leyti sem þetta siðferðilega hrun samanlagt dugir ríkisstjórninni ekki, neyðist hún til að láta prenta verðlausa seðla. Þá mun verðbólgan, sem nú blundar undir niðri, fá æðiskast á nýjan leik. Allt þetta vegna heilögu kúnna.

Jónas Kristjánsson

DV