Gatasigti kvótakerfis

Greinar

Ekkert kerfi er betra en götin á því. Þveröfugt við það, sem sjávarútvegsráðherra heldur fram, er ekki hægt að skilja milli fiskveiðikerfisins annars vegar og hins vegar lögbrotanna, sem framin eru í götunum á því. Segja má, að þetta skömmtunarkerfi sé samfellt gatasigti.

Þótt nýleg og fræg sjónvarpsmynd af brottkasti hafi verið sviðsett, leikur enginn vafi á mikilli útbreiðslu þess. Alvarlegt er, að sjómenn skuli almennt vera svona glæpahneigðir, en ekki er nóg að sækja þá til saka. Breyta þarf kerfinu á þann hátt, að freistingunum fækki.

Vegna linnulausra glæpa eru reiknilíkön fiskifræðinga meira eða minna vitlaus. Brottkastið veldur fiskadrápi langt umfram heimildir. Einnig er svindlað milli fisktegunda, milli tegunda fiskiskipa, milli fisks af erlendum og innlendum skipum, milli kvótakerfis og dagakerfis.

Þar við bætist, að stjórnmálamenn hafa oft bætt miklu við magnið, sem fiskifræðingar mæla með. Allar þessar skekkjur samanlagðar eru mikilvægur þáttur í samdrætti fiskistofna á Íslandsmiðum. Flestir þeirra eru ofveiddir svo harkalega, að kalla má hreina rányrkju.

Um helgina var töluverð umræða um færeyska kerfið, sem komið var á fót fyrir fimm árum, þegar fiskveiðar Færeyinga hrundu. Þar eru skammtaðir sóknardagar, en ekki aflamagn, svo að brottkast er þar ekki vandamál. Að öðru leyti eru vandamálin hliðstæð í Færeyjum.

Þar eins og hér eru alls konar grá svæði, þar sem svindlað er í götunum. Þar er svindlað milli fisktegunda, milli stærða fiskiskipa, milli veiðarfærategunda, milli veiðisvæða, milli tegunda veiðileyfa, milli kvótakerfis og dagakerfis. Færeyska kerfið er ekki einfaldara.

Lausn íslenzka vandans felst ekki í að taka upp færeyska vandann. Hins vegar þarf að kasta núverandi kvótakerfi og taka upp aðra tegund skömmtunar að hinni takmörkuðu auðlind, þar sem haft verði að leiðarljósi, að gráu svæðin verði sem minnst og götin sem fæst.

Auðlindin er takmörkuð og sóknargetan of mikil og vaxandi. Því þarf einhverja skömmtun, svo að veiðin verði sjálfbær. Spurningin er bara, hvers konar skömmtun verndar stofninn bezt, framkallar fæst lögbrot og gefur kost á sem einföldustu skipulagi og eftirliti.

Vel kemur til greina að taka upp skömmtun á sóknardögum fremur en skömmtun á aflamagni, af því að staðsetningartækni nútímans auðveldar eftirlitið. En ekki má vera kerfi aflamagns í gangi samhliða, því að menn finna alltaf leiðir til að svindla á mörkum kerfa.

Jafnframt þarf að gæta þess að vera ekki með misjafnar reglur milli stærðar eða tegundar fiskiskipa, milli tegundar veiðarfæra, milli nálægra og fjarlægra veiðisvæða, milli tegundar eða staðsetningar byggða, milli tegunda fiskverkunar eða milli tegunda veiðileyfa.

Svarið við þessum vandamálum öllum er að bjóða afladagana upp á almennu útboði, þar sem allir lysthafendur geti tekið þátt. Útboð eru eina hagfræðilega leiðin til að skammta aðgang að takmarkaðri auðlind og afladagar eru bezta leiðin til að gera sjávarútveginn sjálfbæran.

Þetta er brýnt verkefni. Stunduð er glórulaus ofveiði við Ísland og hlaðið er undir glórulausa glæpahneigð íslenzkra sjómanna. Á endanum neita útlendingar að kaupa fiskinn héðan, af því að hann getur ekki fengið alþjóðalega vottunarstimpla um sjálfbæran sjávarútveg.

Kvótahagsmunir ráða viðhorfum ráðamanna okkar. Undir forustu sjávarútvegsráðherra stimpast þeir gegn breytingum, sem skapa sátt um sjávarútveginn.

Jónas Kristjánsson

DV