Gaukur

Veitingar

Gömul skemma fær nýtt líf

Gaukur á Stöng er ekki bara ölkrá, heldur alvöru veitingahús með tiltölulega fjölbreyttum matseðli, þar sem bæði gæði og verð eru rétt fyrir ofan meðallag. Mesta sérkenni Gauks er þó, hversu ungir viðskiptavinirnir eru í samanburði við gesti annarra matsölustaða borgarinnar. Stemmningin er oft í samræmi við það, ekki sízt ef einhver tekur upp hljóðfæri.

Mikið starfslið er í Gauki, að minnsta kosti þegar fullt er hús. Það er að verulegu leyti á aldri gesta, sumt af því í hlaupavinnu, svo að fagmennskan er ekki alltaf nákvæm. En það lætur ekki bíða eftir sér, þótt það þekki marga gesti og gefi sér tíma til að spjalla við þá.

Strax að utanverðu sézt, að þessi gamla skemma hefur öðlazt nýja reisn. Frágangurinn þar er smart alveg eins og hann er innan dyra. Staðurinn hefur stíl, þótt myndirnar á veggjunum séu mjög svo sín úr hverri áttinni. Gömlu húsgögnin á barnum gefa tóninn. Fallegast er þó gólfið, lagt mjög stórum, hvítum og svörtum flísum. Pílárastólar eru í stíl við beru, dökkbrúnu viðarborðin. Mikið er um pottablóm, líka á borðunum.

Gömlu burðarsúlurnar með skástífum varðveita á neðri hæðinni minningu gamla tímans. Uppi er hins vegar súðstofa í nútímalegum stíl. Niðri er pláss fyrir um 80 manns og líklega helmingi færri hið efra. Í forstofunni hanga dagblöð á stöngum.

Niðursoðin tónlist er nokkuð hávær, þegar fámennt er, en drukknar hins vegar í klið fjölmennis. Volg vínglös eru ekki skemmtileg og þá ekki heldur litlar pappírsþurrkur, að minnsta kosti ekki á kvöldin, þegar kveikt hefur verið á kertunum.

Óvenjulegir réttir

Matseðlarnir eru tveir, annar fyrir hádegið og hinn fyrir kvöldið. Í báðum tilvikum eru svo nokkrir réttir dagsins til viðbótar krotaðir á viðamikla töflu. Í þessu framboði kemur fram metnaður, sem lýsir sér í nokkrum óvenjulegum réttum, er sneiða hjá gamaldags matseðlum margra annarra veitingahúsa. Í flestum tilvikum, en ekki öllum, stendur eldhúsið að verulegu leyti undir þessum metnaði.

Ég hafði ekki aðstöðu til að prófa andakjötssúpu, ferskt grænmetissalat með kiwi, ferskt baunaspírusalat með kínverskri sojasósu og öðuskel eða léttsteikt fjallagrasapaté með ferskum sveppum, sem gaman hefði verið að kynnast. Ekki heldur öllum sjávarréttunum, sem prýða matseðlana og tilboð dagsins, svo sem kryddlegna blálöngu og smjörsteiktan karfa eða regnbogasilung.

Avocado-salat með ferskum sveppum og brieosti var fallegur og góður réttur. Avocado-sneiðarnar lágu ofan á tómat-, gúrku- og paprikusalati, lítillega sítrónuvættu. Með var gott brauð með þýzkættuðu bragði.

Hvítlaukskryddaðir sjávarsniglar með kryddhrísgrjónum reyndust vera kuðungar, sennilega úr dós, þéttir undir tönn, en ekki seigir. Þeir voru saxaðir saman við sveppi, papriku og lauk í hvítlaukskrydduðu tómatmauki, bornir fram á hörpudiski. Til hliðar voru hrísgrjón, sítróna, gúrka, tómatur og paprika. Þetta var frambærilegt, en ekkert sérstakt.

Sítrónuleginn lax með spergli og ristuðu brauði var hins vegar hinn ljúfasti forréttur, skemmtileg tilbreytni frá graflaxinum, sem næstum alls staðar er í boði. Með honum var borin hversdagsleg sinnepssósa, íslenzk steinbítshrogn, sítrónuleginn spergill, sítróna, gúrka og ristað brauð.

Pönnusteikt heilagfiski með kræklingi var mildilega steikt, ekki þurrt og virtist raunar vera grillað, kannski pönnugrillað, því að fitan lét hóflega yfir sér. Ofan á fisksneiðinni var mikið af dósakræklingi, en engar rækjur. Til hliðar var góð sósa, léttsoðið blómkál og ríflega soðnar kartöflur og gulrætur, svo og gott hrásalat, sítrónu- og appelsínusneiðar. Þetta var fyrirtaks matur, ef kræklingurinn var skilinn eftir.

Léttsteikt andarbrjóst með Waldorf-salati var í rauninni léttsteikt eins og stóð á töflunni, ágætur matur, en frekar bragðdaufur. Í salatinu voru nærri eingöngu eplabitar, svo og tveir vínberjahelmingar, en hvorki seljurót né hnetur, sem nafnið hefði þó gefið tilefni til. Verst við þennan rétt var svo grátt og hart brokkál, ósoðið, bragðlaust og ólystugt. Einnig fylgdi gott hrásalat.

Pönnusteiktur svartfugl með seljurót var miklu betri réttur. Fuglakjötið var alveg rautt að innanverðu og sérlega meyrt. Sjávarfuglsbragðið var hæfilega milt. Með fuglinum voru hvítar kartöflur, dósagulrætur og raspaðar lengjur af seljurót, mjög vel heppnaðar. Ennfremur sama, góða hrásalatið og með öndinni, kínakál, appelsína, gúrka og tómatur. Ennfremur sama, hlutlausa hveitisósan í sniðugri, lokaðri sósuskál.

Öndin og svartfuglinn voru nákvæmar elduð en venja er í veitingahúsum landsins og voru því tiltölulega góður matur, þótt ekkert væri í líkingu við gæðin, sem ég hef fundið í Arnarhóli.

Kiwi-terta reyndist aðallega vera krem. Súkkulaðiís var frambærilegur. Kaffið var slakt. Vínlistinn er stuttur, en nokkuð góður. Boðið er upp á vín hússins í glasatali.

Miðjuverð forrétta á kvöldseðli er 185 krónur, súpa 107 krónur, sjávarrétta 275 krónur, kjötrétta 420 krónur og eftirrétta 135 krónur. Þriggja rétta veizla með hálfri flösku af víni á mann og kaffi ætti þá að geta kostað um 789 krónur. Hliðstæð veizla af hádegisseðli ætti með sama reikningi að kosta um 570 krónur. Súpa og aðalréttur af töflu kostaði um 315 krónur í hádeginu og 440 krónur að kvöldi.

Ágæt viðbót

Gaukur á Stöng er ágæt viðbót við íslenzk veitingahús. Margt er gott um staðinn að segja, svo sem hér hefur komið fram. Bezt er þó sjálft andrúmsloftið, summan af því, sem fram er boðið, og gestunum, sem laðast að.

Jónas Kristjánsson

DV