Gegn æðinu í Afganistan.

Greinar

Almenningur á Vesturlöndum þarf að taka Afganistan upp á arma sína. Beita þarf beinum þrýstingi gagnvart sendiráðum Sovétríkjanna og öðrum umboðsaðilum þeirra, hvenær sem fólk getur búið sér til tækifæri til þess, allt frá mótmælastöðum yfir í hanastél.

Ennfremur þurfum við að beita óbeinum þrýstingi á lingerð stjórnvöld og utanríkisráðuneyti á Vesturlöndum. Fólk þarf að knýja slíka aðila til að sýna meiri festu andspænis langsamlega hrikalegasta glæp gagnvart mannkyninu, sem framinn er um þessar mundir.

Engir slíkir glæpir komast í hálfkvisti við glæpi Sovétríkjanna í Afganistan. Glæpir leppa þeirra í Víetnam og Eþíópíu eru ekki eins þungvægir, hvað þá glæpir leppa Bandaríkjanna í Mið og Suður-Ameríku, sem raunar fara minnkandi um þessar mundir.

Sovétstjórnin rekur gersamlega miskunnarlausan hernað gegn almenningi í Afganistan. Þriðjungur þjóðarinnar, hvorki meira né minna en fjórar milljónir manns, er flúinn til nágrannalandanna, einkum Pakistan. Þessu flóttafólki þurfa Vesturlandabúar að sinna.

Enn hörmulegra er ástandið hjá þeim, sem eftir sitja. Vígvél Sovétríkjanna eyðir kerfisbundið uppskeru og leggur þorp kerfisbundið í rúst. Börnum og konum er smalað í hús, sem sprengd eru upp. Börn eru pynduð með raflosti fyrir framan foreldra sína.

Vestrænir blaðamenn hafa sumir hverjir sýnt mikið hugrekki við að afla upplýsinga af æði Sovétríkjanna í Afganistan. Hið sama er að segja um marga vestræna lækna, sem starfa við hinar hættulegustu aðstæður meðal fólks í landinu. Hvorir tveggja eru taldir réttdræpir.

Franskir blaðamenn og læknar hafa staðið sig vel á þessu sviði. Liður í tilraunum sovétstjórnarinnar til að aftra störfum þessara aðila var dómurinn yfir franska blaðamanninum Jacques Abouchar. Hann var gripinn hjá skæruliðum og fékk 18 ára fangelsisdóm.

Það var ekki leppstjórn Sovétríkjanna í Kabúl, sem fékk Abouchar náðaðan og fluttan vestur fyrir tjald. Það var Sovétstjórnin sjálf, sem annaðist þá framkvæmd. Skilaboðin, sem hann var látinn flytja vestur, voru, að næst yrði farið harkalegar í sakirnar.

Sovétstjórnin er að reyna að loka Afganistan, skrúfa fyrir hinn litla straum upplýsinga, sem berst úr landinu til Vesturlanda. Sovétstjórnin fyrirlítur auðvitað mannréttindi, en hún vill samt ekki, að á Vesturlöndum sé mikið fjallað um glæpi hennar.

Þetta er raunverulega hliðstæðs eðlis og ofsóknir sovétstjórnarinnar gegn mannréttindasinnum og öðrum stjórnarandstæðingum heima fyrir. Markmiðið er hið sama, að stöðva fréttirnar, fá þögn. Aðferðirnar eru bara ógeðslegri og villimannlegri hjá Rauða hernum í Afganistan.

Takmarkið er, að augu Vesturlandabúa lokist fyrir fjöldamorðum Sovétstjórnarinnar, en opnist þeim mun betur fyrir alvarlegum glæpum, sem drýgðir eru á vegum bandarískra leppa í Mið og Suður-Ameríku. Þessu herbragði verðum við að verjast og taka Afganistan sérstaklega á dagskrá.

Varaformaður stjórnmálanefndar Evrópuþingsins, Jean-Francois Deniau, fyrrum ráðherra í Frakklandi, er nýlega kominn úr leyniferð til Afganistan. Hann hvatti Vesturlandabúa til öflugri stuðnings við skæruliða, þar á meðal hernaðarlegs. Undir þá hvatningu er eindregið tekið.

Jónas Kristjánsson

DV