Stjórnmálin á Alþingi og í ríkisstjórn í vetur hafa sýnt, að það er fleira, sem sameinar íslenzku stjórnmálaflokkana en sundrar þeim. Oft hefur komið í ljós víðtæk samstaða um mál, sem sýna, að stjórnmálaflokkarnir eru ekki einu sinni hræddir við almenning á kosningavetri.
Allir þingmenn þjóðarinnar, frá framsóknarflokkunum stóru yfir í Jóhönnu Sigurðardóttur, vildu, að ráðherra hefði frjálsar hendur um að setja mörg hundruð prósent tolla á innflutt matvæli og að þessi ráðherra skyldi einmitt vera hagsmunaráðherra landbúnaðarins.
Þessar hömlur gera matvæli á Íslandi nokkrum milljörðum króna dýrari en þau þyrftu að vera, sennilega rúmlega tíu milljörðum dýrari. Samt telur ekki einn einasti þingmaður koma til greina að taka hið minnsta tillit til almannahagsmuna gegn sérhagsmunum í landbúnaði.
Alþingi lauk störfum í vetur án þess að gera bragarbót í jöfnun atkvæðisréttar. Þegar á reynir, eru stjórnmálaflokkarnir hjartanlega sammála um, að núverandi misrétti eftir búsetu sé hæfilegt, jafnvel þótt sumir þykist hafa aðra skoðun. Verkin tala og ekki síður verkleysan.
Stjórnmálaflokkarnir höfðu allt kjörtímabilið til að koma sér saman um jöfnun atkvæðisréttar eða marktæka minnkun á misrétti kjósenda. Þeir gerðu ekkert í málinu fyrr en undir jól, er þeir komu saman til málamynda í kosningalaganefnd, sem starfaði lítið og illa.
Alþingi lauk störfum í vetur án þess að skera úr um, að þjóðin sjálf ætti auðlindir hafsins. Á sama tíma er að myndast hefð fyrir eignarhaldi sægreifa. Þeir geta meira að segja arfleitt aðra að auðlindunum og farið í skaðabótamál, ef ríkið reynir að skerða eignarhald þeirra.
Stjórnmálamenn fullyrða margir hverjir, að þeir séu hlynntir eignarhaldi þjóðarinnar á fiskimiðunum. Þegar þeir komast á Alþingi, svo ekki sé talað um ríkisstjórn, sýna verk þeirra samt, að þröngir sérhagsmunir sægreifa standa þeim nær hjarta en almannahagsmunir.
Ár eftir ár og ríkisstjórn eftir ríkisstjórn standa stjórnmálamenn landsins að aukinni álagningu á skattgreiðendur landsins til að styðja við bakið á sérhagsmunum af ýmsu tagi. Landbúnaðurinn einn fær á hverju ári marga milljarða króna úr vösum skattgreiðenda.
Stjórnmálamenn flokkanna segjast flestir horfa til framtíðar. Í rauninni eru þeir svo fastir í verndun fortíðarinnar, að þeir draga úr útgjöldum til menntamála, svelta háskóla þjóðarinnar og lyfta ekki litla fingri til eflingar stafrænna hátekju-atvinnuvega framtíðarinnar.
Ár eftir ár og ríkisstjórn eftir ríkisstjórn auka stjórnmálamenn skuldabyrði afkomenda okkar. Grunntónn fjárlaga og lánsfjárlaga er, að afkomendur okkar skuli borga brúsann af sukki líðandi stundar og að þeim verði jafnframt ekki sköpuð aðstaða til þess að geta það.
Mál af þessu tagi sýna pólitíska sátt á Alþingi og í ríkisstjórn um að taka sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni, frysta fortíðina til að hindra framtíðina, efla ójöfnuð og minnka jöfnuð. Þessi þverpólitíska sátt er studd skipulögðum og fjáðum þrýstihópum sérhagsmunaaðila.
Með aðild verkalýðsrekenda og atvinnurekenda verður úr þessu ein allsherjar þjóðarsátt um, að ekki skuli hætta að brenna peningum almennings og að magna skuli lífskjaramuninn í þjóðfélaginu. Slíkar þjóðarsættir um fátækt hafa verið næsta árvissar um nokkurt skeið.
Í ljósi stjórnmála vetrarins er raunar merkilegt, að rúmlega helmingur kjósenda skuli þegar hafa gert upp hug sinn og valið milli keimlíkra stjórnmálaflokka.
Jónas Kristjánsson
DV