Erfitt hlýtur að vera fyrir forsætis- og utanríkisráðherra Íslands að bera utanríkisstefnu Bandaríkjanna um þessar mundir. Hætta á hryðjuverkum magnast, Al Kaída þenst út og Osama bin Laden er ofsakátur í fullu fjöri, en rústað hefur verið Írak, sem hvorki studdi hryðjuverk á Vesturlöndum, né bjó yfir ógnarvopnum. Lögmál laga og réttar í alþjóðlegum samskiptum hefur vikið fyrir bandarískum hagsmunum og ofstæki. Flestir landsfeður, sem hafa stutt George W. Bush Bandaríkjaforseta, hafa tapað á því, mest þó Tony Blair í Bretlandi, sem hefði vafalaust getað leynt eðli sínu fyrir kjósendum, ef hann hefði ekki lent í þessari ógæfu. Baráttan í heiminum um þessar mundir er milli hirðar Bush annars vegar og alls heimsins hins vegar. Davíð og Halldór eru öfugu megin gaddavírsins.