Gegnsæi er bezt

Greinar

Góð reynsla er af að láta sömu lög og reglur gilda hér á landi og í þeim löndum, sem við höfum mest samskipti við. Þess vegna höfum við tekið upp og erum enn að taka upp aragrúa af evrópskum reglum, sem meðal annars hafa að markmiði að auka í senn frelsi og aðhald í efnahagslífinu.

Slæm reynsla er hins vegar af þeirri skoðun, að Ísland sé öðru vísi en önnur ríki og þess vegna eigi að hafa hér öðru vísi lög og reglur en í nágrannalöndunum, svo sem haldið var fram í svonefndri Eysteinsku. Þá ríktu hér Fjárhagsráð og fleiri skömmtunarstofur, svo og margs konar krónugengi.

Vegna þessa er ekki skynsamlegt að setja hér á landi séríslenzk lög og séríslenzkar reglur gegn einokun og hringamyndun í atvinnulífinu í heild eða í einstökum greinum þess. Miklu betra er að láta kanna, hvort íslenzki ramminn sé öðru vísi en annars staðar og laga hann að Evrópu.

Á Vesturlöndum hafa stjórnvöld almennt áttað sig á, að boð og bönn eru ekki rétta leiðin til árangurs. Boð og bönn framleiða grá svæði. Fyrirtækin ráða sérfræðinga til að finna, hvernig megi túlka gráu svæðin sér í hag, teygja þau og toga, oftast í skjóli leyndar um framferði fyrirtækja.

Hneyksli á borð við Enron í Bandaríkjunum og Parmalat á Ítalíu hafa leitt til aukins fylgis ráðamanna vestrænna ríkja við tærara gegnsæi í þjóðfélaginu. Meðal annars hafa fjármálaráðherrar Evrópu einróma samþykkt að afnema bankaleynd í áföngum og skiptast á upplýsingum um skatta.

Með því að varpa hulu af leyndarmálum fyrirtækja og stofnana geta allir og þar á meðal almenningur séð, hvernig er í pottinn búið og tekið afstöðu til þess. Menn telja reynsluna sýna, að gegnsæi sé áhrifaríkari leið en boð og bönn til að fá fyrirtæki og stofnanir til að haga sér skikkanlega.

Sem dæmi um gegnsæi má nefna, að alltaf séu til aðgengilegar upplýsingar um, hverjir eigi fyrirtæki í hvaða hlutfalli, hvaða samband sé milli fyrirtækja í sama geira og hvaða greiðslur eða fríðindi renni til stjórnmálaflokka, stjórnmálamanna og annarra valdaaðila í þjóðfélaginu.

Ekki er trúverðugt, þegar forsætisráðherra vill setja lög um einokun og hringamyndun, af því að það voru ekki réttir aðilar, sem keyptu. Meira traust mundi stafa af aðgerðum til að taka upp sama gegnsæi í fjármálum og viðskiptum og aðrar þjóðir eru að gera. En þá færi gamli kolkrabbinn að gráta.

Jónas Kristjánsson

DV