Milljarðafyrirtæki getur slett einni milljón króna í kosningabaráttu stjórnmálaflokks, sem ekki er þóknanlegur, og hælzt um af því, ef umræða um flokkastyrki verður óþægileg, en látið þóknanlegan flokk frá tvo tugi milljóna og jafnframt haldið fram, að hann hafi ekkert fengið.
Styrkir til flokka og pólitíkusa eru ekki aðeins bein framlög fyrirtækjanna. Þau geta líka látið flokka og menn hafa aðstöðu, sem sparar þeim peninga. Þannig má fela í bókhaldi fyrirtækja reikninga fyrir vörur og þjónustu, sem þau nota ekki sjálf, heldur láta flokkum og mönnum í té.
Í bókhaldi milljarðafyrirtækis má fela húsaleigu, símaleigu, tækjaleigu og hvers kyns aðra þjónustu fyrir stjórnmálaflokka og jafnvel launagreiðslur á vegum þeirra. Það mundi kosta nákvæma lögreglurannsókn að finna slíka fyrirgreiðslu og kerfið hefur enga lyst á slíku.
Raunverulega mætti reka alla starfsemi stjórnmálaflokks og alla kosningabaráttu hans innan bókhalds óviðkomandi fyrirtækja. Það takmarkast að vísu af, að skrýtið þætti, að flokkur hefði alls engan rekstur. Hann verður því að sýna fram á einhvern rekstur í bókhaldi sínu.
Forstokkaður eða ófróður talsmaður milljarðafyrirtækis getur því kotroskinn haldið fram, að fyrirtæki hans hafi styrkt Samfylkinguna um heila milljón króna, en Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafi ekki fengið krónu, enda hafi þeir ekki farið fram á slíkt.
Þess vegna nægir ekki að setja lög um birtingu reikninga stjórnmálaflokka og birtingu á skrám yfir styrktaraðila umfram einhverja lágmarksupphæð. Lögin þurfa líka að ná til óbeinnar fyrirgreiðslu í þágu flokka og pólitíkusa, sem falin er í reikningum óviðkomandi fyrirtækja.
Auðvelt er að fara í kringum lagaákvæði um birtingu upplýsinga um óbeina fyrirgreiðslu. Því þarf að gera ráð fyrir stikkprufum samkvæmt tilviljanaúrtaki og ströngum viðurlögum við brotum, ef þau komast upp. Annars verða lög um fjárreiður stjórnmálanna bitlaus með öllu.
Nánast öll vestræn ríki önnur en Ísland hafa komið sér upp lögum um fjárreiður stjórnmálaflokka. Lögum þessum er yfirleitt ekki ætlað að torvelda stuðning við flokka, heldur að gera þann stuðning gegnsæjan, svo að kjósendur viti, hverjir séu í innilegustu ástarsambandi við flokkana.
Helmut Kohl, fyrrverandi kanzlari Þýzkalands, braut slík lög. Fyrir það hefur hann og flokkur hans, Kristilegi demókrataflokkurinn, sætt ámæli, fylgistapi og opinberum rannsóknum. Þýzkaland er nefnilega vestrænt lýðræðisríki, þar sem farið er að ströngum leikreglum.
Að undirlagi kjósenda er Ísland hins vegar bananalýðveldi, þar sem ekki tekst að koma á lögum um gegnsæi stjórnmálaflokka, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Jóhönnu Sigurðardóttur alþingismanns. Bananakóngurinn afgreiðir slíkt jafnhraðan út af borðinu sem hræsni.
Gegnsæi er ein af helztu forsendum lýðræðis og markaðsbúskapar. Atriði, sem máli skipta, eiga ekki að vera falin fyrir borgurum, kjósendum, fjárfestum, starfsmönnum og almenningi yfirleitt. Þannig eru tryggðar heiðarlegar leikreglur í stjórnmálum, viðskiptum og fjármálum.
Það sker Ísland frá hinum vestræna heimi, að kjósendur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks láta sér vel líka, að flokkar þessir standi ár eftir ár gegn lögum um gegnsæi í fjárreiðum stjórnmálaflokka. Íslenzkir kjósendur hafa einfaldlega ekki þroska til að halda uppi lýðræði.
Þetta er einn af mörgum þáttum í mynztri, sem veldur því, að stjórnmál á Íslandi verða bezt skilin með því að líta á þau sem sýndarveruleika í bananalýðveldi.
Jónas Kristjánsson
DV