Gegnsæir fjölmiðlar

Greinar

Fyrir aðeins tveimur árum var áttu þrír fjölmiðlar af sex við geigvænlegan peningavanda að stríða. Þeim var bjargað fyrir horn hverjum á fætur öðrum, svo að nú eigum við aðgang að sex fullburða fréttastofum í stað þriggja, sem annars hefði verið. Þetta heldur uppi hollri samkeppni í fréttum.

Allir þessir fjölmiðlar eru gegnsæir almenningi. Vitað er, hverjir eiga þá og í hvaða hlutföllum. Stjórnendur og starfsmenn eru þekktir. Vitað er, hverjir auglýsa í þeim. Með samanburði frétta geta notendur áttað sig á sérkennum hvers fjölmiðils og metið, hvort efni hans sé brenglað.

Af framangreindum ástæðum blómstrar fréttamennska sem sjaldan fyrr. Almennir fréttaneytendur sjá ekki þau merki einokunar og hringamyndunar, er sumir hagsmunaaðilar segjast sjá, þeir sem harma horfna yfirburði Morgunblaðsins, þess blaðs sem var næstum orðið eina dagblaðið hér á landi.

Engin trygging er fyrir því, að góð staða frétta haldist um ómunatíð. Hlutafé gengur kaupum og sölum. Þannig er skjólstæðingur og velgerðamaður forsætisráðherra skyndilega orðinn næststærsti hluthafi fjölmiðils, sem óspart hefur verið sakaður um að vera andsnúinn hinum sama ráðherra.

Allt getur snúist í andhverfu sína í hagkerfi hlutabréfa. Til skjalanna geta síðar komið aðilar, sem hafa meiri áhuga á misnotkun fjölmiðla en arði af fjölmiðlum. Við getum ekki sett reglur til að banna slíkt. En við munum fljótt taka eftir, ef fjölmiðill fer að gæta annarlegra hagsmuna.

Stjórnmálin eru andstæða opinskárrar sambúðar fjármagns og fjölmiðla. Enginn fær að vita, hvernig peningavaldið fjármagnar stjórnmálaflokka og -menn. Þar ríkir ekki sama gegnsæi og í fjölmiðlunum. Gegnsæi er hornsteinn lýðræðis og það virkar bara í fjölmiðlunum, en ekki í stjórnmálunum.

Þótt fjölmiðlar séu þannig á hærra plani en stjórnmál, geta þeir gert ýmislegt til að draga úr vantrausti og efasemdum í sinn garð. Til dæmis geta þeir sett sér gegnsæjar og opinberar siðareglur, hver með sínu sniði, og gefið fólki færi á að meta, að hve miklu leyti þeir ná ekki settu marki.

Ennfremur geta fjölmiðlar komið sér upp umboðsmanni lesenda, sem tekur við kvörtunum um skilgreind frávik frá siðareglum viðkomandi fjölmiðils, kannað gildi þessara kvartana og metið það í sérstökum dálki eða þætti til slíkra nota. Með þessu væru fjölmiðlar að kalla á aukið traust notenda.

Siðareglur og umboðsmenn eru tæki, sem fjölmiðlar geta notað til að bæta sig og stöðu sína í hugum fólks og draga úr líkum á, að óprúttnir geti þyrlað upp moldviðri gegn þeim.

Jónas Kristjánsson

DV