Gegnsætt fé og frítt

Greinar

Engan vanda leysir að fela ríkisendurskoðanda að fylgjast með fjárreiðum stjórnmálaflokka. Ríkisendurskoðandi er ekki umboðsmaður kjósenda og nýtur ekki trausts þeirra. Kjósendur eru litlu nær, þótt embættismaður kerfisins stimpli á bókhald flokka og segi ekkert vera athugavert við það.

Munurinn á bananalýðveldinu Íslandi og alvöruríkjum beggja vegna Atlantshafsins er ekki sá, að trúnaðarmaður kerfisins sjái þar gögn, en ekki hér. Munurinn er ekki sá, að þar séu greiðslur bannaðar, en ekki hér. Munurinn er ekki sá, að þar séu sett einhver mörk á fjárhæðir, en ekki hér.

Gegnsæið er það, sem skiptir máli. Það, sem vantar hér á landi, er, að fólk fái sjálft að vita, hvernig pólitísk öfl eru fjármögnuð. Menn eru ekki að biðja um bönn við slíkum greiðslum eða takmarkanir á upphæðum, heldur að fá að vita um þessa hluti eins og þeir vita um annað í gangverkinu.

Þekkingin veitir frelsið, ekki takmarkanir, bönn eða makk milli ríkisendurskoðanda og atvinnurekenda hans. Það nægir í flestum tilvikum, að greiðslukerfið sé gegnsætt. Þá er ekki aðeins talað um flutning fjármagns, heldur einnig flutning reikninga, þegar fyrirtæki borga útgjöld fyrir stjórnmálin.

Við erum að tala um launagreiðslur starfsmanna og greiðslur fyrir húsnæði og þjónustu á borð við síma. Við erum að tala um þá miklu samfléttingu efnahagslegra hagsmuna, sem eru undirstaða tilveru tveggja stjórnmálaflokka, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins. Við viljum vita, hver á þessa flokka.

Við erum orðin þreytt á yfirlýsingum erindreka um, að þeirra fyrirtæki hafi gefið smáflokkum smáupphæð, en stórum flokkum ekkert. Við vitum, að þetta er lygi. Við vitum nú þegar, að margar milljónir hafa runnið frá olíufélögunum til tveggja stjórnmálaafla, sem stóðu fyrir fáokun á benzínverzlun.

Annars staðar taka menn svona hluti alvarlega. Í Þýzkalandi féll trausti rúinn Helmut Kohl, því að hann brá huliðshjálmi yfir greiðslur til flokks síns. Þar í landi gilda lög um gegnsæi í fjárreiðum stjórnmálaflokka. Ísland er raunar eina ríkið, þar sem bananaflokkum hefur tekizt að hindra gegnsæi.

Tillaga viðskiptaráðherra um að fela ríkisendurskoðanda að skoða málið er marklaus með öllu. Hún felur í sér tilraun til að varpa huliðshjálmi yfir upplýsingar, sem fólkið í landinu á skilið að fá sjálft að vita um. Hún er enn ein sjónhverfingin, sem kjósendur þurfa að þola í þessu landi.

Ekki er heldur verið að biðja um birtingu upphæða ofan við hálfa milljón. Það er verið að tala um, að allar fjárreiður stjórnmálanna í fé og fríðu verði gerðar öllum heyrinkunnar.

Jónas Kristjánsson

DV