Gengi, vextir og gæludýr

Greinar

Ráðamenn þjóðarinnar eru sumir hverjir að byrja að skilja, að viðskiptahalli Íslands er orðinn hættulegur og fer ört vaxandi. Forustumenn í Framsóknarflokknum hafa lýst áhyggjum út af því, að ekkert er gert til varnar, og eru búnir að kalla saman sitt lið til fundar.

Hugmyndir þeirra um, hvað gera skuli, eru hins vegar ekki upp á marga fiska. Formaður þingflokksins heldur fram, að lækka beri vexti og auka byggðastefnu. Hvort tveggja mun þvert á móti magna spennu og peningaþörf og stuðla að innflutningi og skuldasöfnun.

Eitt af því, sem gera þarf til að draga úr viðskiptahalla, er að leyfa vöxtum að halda áfram að hækka, unz jafnvægi næst milli sparnaðar og notkunar á peningum. Slíkt jafnvægi hefur ekki náðst, af því að stjórnvöld hafa í hræðslu hamlað gegn eðlilegri hækkun vaxta.

Lágir vextir og óhófleg sókn í lánsfé leiðir til aukins innflutnings á erlendum vörum og erlendu lánsfé. Með því að leyfa vöxtum að finna jafnvægi í hærri tölum er unnt að draga úr þessari spennu, sem þegar hefur gert Íslendinga að langsamlega skuldugustu þjóð í heimi.

Of hátt skráð gengi íslenzku krónunnar er annað atriði, sem hvetur til notkunar á innfluttum vörum og þjónustu í stað innlendrar og gerir útflutningi á vöru og þjónustu erfitt fyrir í samkeppni við útlenda vöru og þjónustu. Krónan fær ekki sjálf að finna sitt jafnvægi.

Hin ranga gengisskráning, sem er stefnuskrármál ríkisstjórnarinnar, spillir til dæmis samkeppnisstöðu fiskvinnslu og flugfélaga á erlendum vettvangi. Slík fyrirtæki hafa tiltölulega mikinn innlendan kostnað og fá ekki nóg af krónum úr gjaldeyrinum, sem þau afla.

Ekki skiptir minna máli, að frjálst eða rétt gengi krónunnar fer ekki allt í súginn, þótt innlendar kostnaðarhækkanir hafi tilhneigingu til að elta eigið skott og skekkja gengið á nýjan leik. Rétt gengi hlýtur að draga varanlega úr notkun innfluttrar vöru og þjónustu.

Með réttum hliðarráðstöfunum má koma í veg fyrir, að gengislækkun krónunnar leiði til lífskjaraskerðingar. Með frjálsari innflutningi búvöru er hægt að gefa neytendum kost á ódýrari mat. Tollfrjáls innflutningur búvöru mun snarlækka vísitölur framfærslukostnaðar.

Marklaust er að tala um aukna gjaldeyrisnotkun við innflutning búvöru. Oft hefur verið bent á, að landbúnaðurinn kostar miklu meira í erlendum aðföngum á borð við benzín og olíur, vélar og tæki, fóður og áburð, en hann sparar í minni innflutningi búvöru.

Raunar má finna lykilinn að brúun viðskiptahallans og stöðvun skuldasöfnunar í útlöndum með því að hætta stuðningi ríkisins við gæludýr þess, hvort sem þau heita landbúnaður eða eitthvað annað, sem kallar á ódýrt lánsfé, styrki, niðurgreiðslur, uppbætur og aðra vernd.

Hinar pólitísku gælur hafa leitt til sextíu milljarða króna offjárfestingar í landinu. Hún kostar okkur sex milljarða króna í vexti á þessu ári. Og til að þjónusta rekstur offjárfestingarinnar í landbúnaði einum þurfum við að borga aðra sex milljarða króna á þessu ári.

Við getum ekki forðað okkur frá tólf milljarða viðskiptahalla með sýndarmennsku og káki. Við verðum að höggva að rótum vandans, ódýrum lánum og offjárfestingu gæludýra og ríkisrekstri landbúnaðar, sem samtals kosta okkur tólf milljarða á þessu ári.

Til þess þarf að leggja niður búvörusamninga og önnur afskipti ríkisins af landbúnaði og öðrum gæludýrum og hætta að skrá gengi og vexti með pólitísku handafli.

Jónas Kristjánsson

DV