Gengið af göflunum

Greinar

Amnesty kennir Bandaríkjunum um hrun mannréttinda í heiminum á þessu ári og allra síðustu árum. Brot Bandaríkjanna og leppa á vegum þeirra hafi stóraukizt og gefið harðstjórum víðs vegar í heiminum ávísun á aukna grimmd. Allt frá 11. september 2001 hafa mannréttindi verið á hröðu undanhaldi.

Bandaríkin eru ekki versta landið, en völd þeirra eru svo mikil, að þau gefa tóninn. Rússar fara bara að tala um Guantanamo, Abu Gharib og Bagram, þegar útlendingar kvarta yfir framferði rússneska hersins í Tsjetsjeníu. Skúrkarnir telja sér kleift að haga sér eins og sjálft heimsveldið.

Amnesty gaf nýlega út 300 blaðsíðna skýrslu um mannréttindi í heiminum. Þar er mest fjallað um brot á vegum Bandaríkjanna, en einnig á vegum stjórnvalda í Súdan og Kongó, Rússlandi og Kína, Burma og Norður-Kóreu, svo að nefndir séu helztu síbrotamenn á sviði mannréttindabrota.

Amnesty kvartar um stjórnlaust lögleysi í Afganistan og Írak og Haíti, þar sem bandaríski herinn hefur tekið völdin, meira eða minna í andstöðu við heimamenn. Í Afganistan er ástandið þannig, að Bandaríkin og leppar þeirra ráða hluta höfuðborgarinnar, en annars staðar ríkir hreint stjórnleysi.

Amnesty leggur áherzlu á endalausa röð uppljóstrana um ógeðslegt framferði bandarískra hermanna, einkum í Írak og Afganistan, svo og í Guantanamo, þar sem kóraninum var sturtað niður, svo sem frægt er orðið og Newsweek varð að biðjast afsökunar á fréttinni til að friða stríðsóða þjóð.

Vandinn í heiminum um þessar mundir er einfaldur. Bandaríkin hafa gengið af göflunum. Þau sparka í allar alþjóðareglur og öll alþjóðalög, sem hefta svigrúm þeirra, til dæmis reglur um meðferð stríðsfanga, sem hafa orðið til vegna langrar reynslu af ógnum stórstyrjalda fyrri áratuga og alda.

Heimsfriðurinn er ótryggur, af því að eina heimsveldi nýrrar aldar gengur berserksgang í utanríkismálum og hefur breytt þeim í stríðsmál. Bandaríkin strá um sig ógn og skelfingu eins og illveldi fyrri alda. Bandaríkin eru að verða að Assyríu nútímans, illveldi, sem gengur fyrir manndrápum.

Vegna aðstæðnanna, sem Amnesty lýsir, má vestrænt fólk ekki sleppa neinu tækifæri til að vekja athygli Bandaríkjamanna á, að þeir eru almennt hataðir fyrir það, sem þeir gera.

DV