Gerilsneyddur Stóri bróðir.

Greinar

Eitt af því, sem hefur á liðnum árum dregið úr óbeit manna á Grænmetisverzlun landbúnaðarins, er, að þeir hafa getað farið þangað og valið sér kartöflur í lausri vigt. Þannig hefur fólk keypt þær kartöflur, sem það vildi, og forðazt hinar, sem fljóta með í pokana.

Eftir að kartöfluverzlunin varð hálffrjáls í vor, hafa neytendur átt þess kost í mörgum búðum að kaupa kartöflur með sama hætti og gert er í útlöndum. Þeir hafa getað valið á milli kartöflutegunda á mismunandi verði, gæðum og stærð – og síðan milli einstakra kartaflna.

Heilbrigðiseftirlit ríkisins vill meina okkur að kaupa kartöflur á þennan hátt. Það hefur dustað rykið af reglugerð um, að hvorki megi selja kartöflur ópakkaðar né í neti. Þær verði að vera í lokuðum pokum, það er að segja óséðar eins og þær finnsku í vor.

Vafalaust er það heilbrigðisráðuneytið, sem stendur að baki og vill forða Íslendingum frá svokölluðum sóðaskap og moldryki, sem talið er, að fylgi þeim viðskiptum með kartöflur, er tíðkast í öðrum löndum og við höfum fagnað, að hafa komizt á hér á landi.

Mörg fleiri dæmi eru um, að heilbrigðisráðuneytið vildi helzt gerilsneyða Ísland og Íslendinga, jafnvel þótt sú stefna muni á endanum leiða til þess, að við getum ekki farið til útlanda án þess að falla samstundis fyrir margs konar gerlum, sem við erum óvön.

Fyrir nokkrum árum tókst Stóra bróður í heilbrigðisráðuneytinu að banna sölu á kjúklingum hér á landi öðruvísi en frystum. Þar með var tekin frá okkur náttúruleg vara. Í staðinn fengum við frysta, bragðdaufa og seiga afurð úr verksmiðjum.

Með frystingunni var stefnt að því að spara mönnum rétta og vandaða meðferð viðkvæmrar vöru. Frystingin dregur úr tilfinningu framleiðenda, verzlunarfólks og neytenda fyrir því, að um viðkvæman mat sé að ræða. Færibandahugsunin er í algleymingi.

Sagt er, að gerlar berist með ófrystum kjúklingum til manna. Heilbrigðisráðuneytið ímyndar sér vafalaust, að Íslendingar nagi kjúklingana hráa eða borði þá með tólum, sem áður hafa verið notuð við meðferð hrárra kjúklinga. Þannig hugsar stóri bróðir.

Eitt skærasta ljósið í Hollustuvernd ríkisins, formaður Matsnefndar vínveitingahúsa, hefur skrifað bréf til bezta veitingahússins utan Reykjavíkur. Í bréfinu er gert að skilyrði fyrir fullu vínveitingaleyfi, að “húsgögn í setustofu verði endurnýjuð”, svo að þau verði “samstæðari”.

Í þessari setustofu eru nú gömul og falleg húsgögn af ýmsu tagi, sérstaklega vinaleg og þægileg. Auðvitað stingur slíkt í augu hins gerilsneydda Stóra bróður. Hann vill í staðinn stöðluð nútímahúsgögn, alveg eins og hann vill lokaða kartöflupoka og frysta kjúklinga.

Sama ráðuneyti hefur fengið sérálit sérstakrar bindindisnefndar um, að torveldaður verði aðgangur þjóðarinnar að bæði léttum vínum og sterkum, væntanlega með þeim afleiðingum, að áfengisbölið breytist í fíkniefnaböl. Nema landsmönnum sé ætlað að naga skósvertu eins og á bannárunum!

Hægt væri að gera grín að þessum og öðrum tiltektum, sem beint eða óbeint eru á vegum heilbrigðisráðuneytisins. En því miður er málið alvarlegra en svo. Stóri bróðir gengur hreinlega laus og vill gerilsneyða þjóðfélagið, búa til þjóðfélag, sem ekki þrífst í umhverfi sínu.

Jónas Kristjánsson.

DV