Gert út á okkar veski.

Greinar

Smám saman er að koma í ljós, að mesta óráð er fólgið í margvíslegum iðnaðarævintýrum, sem fyrirhugað er að koma hér á fót að meira eða minna leyti á kostnað ríkissjóðs, neytenda og skattgreiðenda. Þau munu draga langan dilk á eftir sér.

Þegar reiknuð var meint arðsemi steinullarverksmiðju, vildi svo heppilega til, að gleymdist að gera ráð fyrir 24% vörugjaldi, sem yrði að vera á framleiðslunni, svo að hún skaðaði ekki núverandi tekjur ríkissjóðs.

Þótt ríkið vildi fórna þessu vörugjaldi til að losna við að styrkja steinullarframleiðsluna með sömu upphæð á annan hátt, dugir það ekki, því að vörugjaldið yrði þá líka að falla niður af innfluttri steinull.

Ísland er nefnilega í Fríverzlunarsamtökunum og hefur viðskiptasamning við Efnahagsbandalagið, hvort tveggja til að tryggja aðgang íslenzkra afurða að erlendum mörkuðum. Og því miður gildir ekki einstefna í slíkum viðskiptum.

Vegna alls þessa er fyrirsjáanlegt 24% tap á steinullarverksmiðjunum, sem kunna að verða reistar hér á næstu árum. Þar á ofan bætist, að margt hefur verið vefengt í arðsemisútreikningunum, til dæmis flutningskostnaður.

Auk þess er steinull almennt á undanhaldi fyrir glerull, perlusteini og plasti. Illa seljanlegar birgðir steinullar hlaðast upp hjá verksmiðjum nágrannalandanna, svo að verðið fer lækkandi og á eftir að lækka meira.

Að svo miklu leyti sem við þurfum á steinull að halda, eigum við að sýna heilbrigða skynsemi og kaupa útlenda steinull á útsöluprísum á kostnað útlendra ríkissjóða, í stað þess að kasta okkur líka út í kviksyndið.

Ástandið í sykrinum er enn verra en í steinullinni. Þar er um að ræða landbúnaðarafurð með öllum þeim forréttindum, sem við vitum, að slíkum fylgja. Hin verndaða sykurframleiðsla eykst hröðum skrefum í kringum okkur.

Það kostar 4,95 danskar krónur að framleiða eitt kíló af dönskum sykri. Þessi sykur er seldur úr landi, til dæmis hingað, fyrir 1,80 danskar krónur kílóið. Mismuninn, 3,15 krónur, fá danskir framleiðendur í útflutningsuppbótum.

Sykurframleiðsla Efnahagsbandalagsins hefur á að eins einum áratug aukizt úr níu milljónum tonna í sextán milljónir. Engin leið er að stöðva þessa offramleiðslu frekar en annað landbúnaðaröngþveiti Efnahagsbandalagsins.

Til viðbótar við þennan vanda eru Bandaríkjamenn farnir að framleiða sætuefni úr maís-sýrópi. Þeirri uppgötvun er lýst sem hinni mikilvægustu síðan framleiðsla sykurrófna hófst fyrir tæpum 200 árum. Verðið á því enn eftir að lækka.

Mjög er skiljanlegt, að finnsku hugmyndafræðingarnir að baki fyrirhugaðri sykurgerð á Íslandi hafi heimtað innflutningsbann á sykri til Íslands og tryggingu á 10% arðgreiðslum til sín. Þeir vita, að fyrirtækið er vonlaust.

Reiknað hefur verið, að tapið á sykurverinu muni nema um 30 milljónum króna á ári. Innflutningsbanninu er ætlað að velta tapinu yfir á neytendur. Þetta er því ekki iðnaður, heldur útgerð á veski almennings.

Sameiginlegt með ýmsum slíkum iðnaðaráformum er, að í framkvæmd munu þau ýmist hækka vöruverð í landinu eða soga fé úr ríkissjóði, nema hvort tveggja verði. Við þurfum að stöðva útgerðarævintýri af slíku tagi.

Jónas Kristjánsson

DV