Gestgjafasprengja

Greinar

Ekki kemur til greina, að Eðvald Hinriksson verði framseldur til Ísraels til að sæta þar ákæru fyrir stríðsglæpi. Ísrael er hryðjuverkaríki, sem þverbrýtur alþjóðalög á hverjum degi. Þar býr herraþjóð, sem umgengst fólk á hernumdum svæðum eins og hunda.

Davíð Oddsson forsætisráðherra var eindregið varaður við að fara í opinbera heimsókn til ofbeldisríkis á borð við Ísrael, enda hafa gestgjafarnir launað honum greiðann. Þeir komu honum í opna skjöldu með því að sprengja í andlit hans kærubéf um stríðsglæpi.

Einnig að öðru leyti hafa stjórnvöld Ísraels haft forsætisráðherra okkar að fífli. Þeir leiddu hann til borgarstjóra Betlehems, svo að forsætisráðherra gæti talið sér trú um, að hann hefði heyrt báðar hliðar Palestínudeilunnar. Er ferðin til Ísraels orðin hin mesta sneypuför.

Hefðbundið er, að forustumenn Sjálfstæðisflokksins líti með sérstakri velþóknun til Ísraels. Það er arfur frá þeim tíma, er sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum stuðlaði að stofnun Ísraelsríkis. En þá var þjóðfélag Ísraels ekki enn farið að rotna af eigin ofbeldi.

Á hinn bóginn hafa leiðtogar Sjálfstæðisflokksins alltaf stutt Eðvald Hinriksson. Morgunblaðið hélt uppi langvinnu andófi gegn ásökunum Þjóðviljans. Helzti liðþjálfi Davíðs á Alþingi var til skamms tíma enn að rita langhunda gegn Árna Bergmann Þjóðviljaritstjóra.

Með því að draga forsætisráðherra til Ísraels og afhenda honum kærubréfið í sviðsljósi alþjóðamála hafa ráðamenn Ísraels tryggt, að íslenzkir embættismenn geta ekki stungið bréfinu undir stól. Ísland verður að grafa upp mál, sem menn héldu, að væri úr sögunni.

Þótt Ísrael sé ekki fínn pappír, er ekki hægt að segja hið sama um Wiesenthal-stofnunina, sem hefur leitað uppi stríðsglæpamenn úr síðari heimsstyrjöldinni. Þótt gerð hafi verið mistök í þeirri stofnun, hefur hún í stórum dráttum orð á sér fyrir áreiðanlegar upplýsingar.

Ísraelsfararnir Davíð Oddsson forsætisráðherra og Þorsteinn Pálsson dómsmálaráðherra verða nú að opna að nýju mál, sem klýfur Sjálfstæðisflokkinn í stuðningi hans við Ísraelsríki annars vegar og Eðvald Hinriksson hins vegar. Þetta er vond staða, sem ekki verður flúin.

Ísland var til skamms tíma friðsælt ríki á hjara veraldar. Nú verður friðurinn rofinn með endurvöktum fréttum af fjarlægum atburðum frá villimennsku síðari heimsstyrjaldar. Við hefðum viljað vera áfram í friði, en getum það ekki, af því að skyldan kallar á annað.

Okkar stjórnvöld geta ekki stungið óþægilegum málum undir stól eins og gert var í Argentínu og víðar í Suður-Ameríku, þar sem leitað hefur verið stríðsglæpamanna. Óhjákvæmilegt er, að ákæran á hendur Eðvald Hinrikssyni fái rækilega réttarfarslega meðferð.

Það felur í sér, að starfsmenn og vitni Wiesenthal- stofnunarinnar verða að fá tækifæri til að koma fyrir íslenzkan dómstól og bera fram gögn og rök fyrir máli sínu. Það felur í sér, að íslenzka dómskerfið verður að taka að sér að reyna að komast til botns í málinu.

Sennilega er málið ekki fyrnt að íslenzkum lögum, því að það varðar lífstíðarfangelsi. Að öðrum kosti munu Ísraelsmenn leggja aukna áherzlu á framsal, því að slíkir glæpir eru örugglega ekki fyrndir þar í landi. Togstreita af því tagi mundi verða okkur til ama.

Gegn ráðum góðra manna álpaðist forsætisráðherra til Ísraels og lét sprengja mál þetta í andlit sér. En kannski höfum við samt gott af að láta raska ró okkar.

Jónas Kristjánsson

DV