Gestgjafinn hlerar

Punktar

Observer hefur komizt yfir bandarískt leyniskjal, dagsett 31. janúar 2003, frá Frank Koza, yfirmanni hjá National Security Agency, þar sem yfirmönnum deilda NSA er skipað að herða njósnir gegn fulltrúum erlendra ríkja hjá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í New York, þar á meðal stöðuga hlerun símtala og tölvupósts. Markmiðið er að Bandaríkjastjórn geti á hverri mínútu fylgzt með, hvernig atkvæði muni falla í öryggisráðinu, hverjir séu veikleikar fulltrúanna og annað, sem talið er skipta máli. Það var öryggisstjóri Bandaríkjaforseta, Condolezza Rice, sem krafðist þessara njósna. Þær hljóta að vekja efasemdir um, að Bandaríkin séu hæf til að vera vettvangur funda öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þau hafa herfilega misnotað hlutverk gestgjafans og haga sér eins og Sovétríkin sálugu.