Frá Skjaldklofaleið ofan Skjöldólfssstaða á Jökuldal að Ferjuhyl á Jökulsá á Fjöllum.
Fyrr á öldum var þetta höfuðleið Austfirðinga yfir Jökulsá og einnig síðar til Möðrudals. Löngum var þetta póstleið Austfirðinga um Möðrudal. Skammt er af leiðinni norður að eyðibýlinu Gestreiðarstöðum, sem veitti ferðalöngum skjól á langri ferð milli byggða.
Í Ljósvetningasögu segir frá ferð Þorkels Geitissonar til Þorsteins Síðu-Hallssonar: “Um sumarið búast þeir heiman að með sex tigu manna hvorir og ríða til Jökulsár. En þá voru góð vöð á ánni víða. Þar skiptu þeir liði. Þorkell og Þorsteinn og þrír aðrir fóru alfaraleið til Vaðlaþings, en flokkurinn allur fór fyrir ofan Mývatn til Króksdals og Bleiksmýrardals og svo fyrir neðan heiði.” Þeir fóru yfir Jökulsá við Ferjufjall eins og Sámur í Hrafnkels sögu Freysgoða.
Byrjum við norðurenda Skjaldklofa ofan Skjöldólfsstaða á Jökuldal. Við förum vestur yfir þjóðveg 1. Síðan áfram til vesturs norðan við Lindarsel, sunnan við Þrívörður, norðan við Axlir og Einbúa, vestur um nyrðra Gestreiðarskarð, vestur Dyngjuskarð, um Dyngjudyr og Staðarás og síðan í Möðrudal. Þaðan suðvestur til Húshólsfells og austan við fellið að Kjalfellshnaus, síðan í Lónabotna og loks suðvestur að gömlum ferjustað á Jökulsá á Fjöllum við Ferjuhyl andspænis Ferjufjalli.
36,1 km
Austfirðir
Nálægir ferlar: Grágæsadalur.
Nálægar leiðir: Skjaldklofi, Skjöldólfur, Leiðaskarð, Byttuskarð.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort