Gin ljónsins

Greinar

Vanhugsað er að senda Íslendinga til starfa í Afganistan um þessar mundir. Þetta er enginn Balkanskagi, þar sem hjálparfólk safnar blómvöndum, heldur einn hættulegasti staður heims, vígvöllur vestræns hernámsliðs, grimmra herstjóra og framleiðenda meirihluta alls ópíums í heiminum.

Hatursfullir Afganar gera lítinn greinarmun á hernámsliði Vesturveldanna og borgaralegum starfsmönnum, sem eru beint eða óbeint á vegum þess, þar á meðal flugumferðarstjórum. Íslenzka utanríkisráðuneytið getur ekki ábyrgzt líf og limi fólks, sem fer til Afganistan á þess vegum eða Nató.

Ástandið í Afganistan er orðið verra en það var á valdatímum Talíban. Innlendu herstjórarnir, sem komust að nýju til valda í skjóli hins vestræna hernáms, lifa á framleiðslu og sölu eiturlyfja og sjá til þess, að lög og réttur er hvergi nokkurs metinn utan við borgarmiðjuna í höfuðstaðnum Kabúl.

Að minnsta kosti ellefu hjálparstarfsmenn hafa verið myrtir síðustu þrjá mánuði og margir tugir hafa særzt. Andstæðingar leppstjórnar Bandaríkjanna í Kabúl beina í auknum mæli spjótum sínum að borgaralegu starfsfólki vestrænu til að sýna fram á, að landinu verði ekki stjórnað án þeirra.

Bandaríska hernámsliðið gerði þau mistök að skipa ekki neinn ráðherra af þjóðflokki Pastúna, annan en forsætisráðherrann Hamid Karzai, sem almennt er talinn leppur Bandaríkjanna. Fólk af þessum langfjölmennasta þjóðflokki Afganistans telur sig ekki hafa öðlast neina aðild að stjórn landsins.

Bandaríska hernámsliðið drepur óbreytta borgara í auknum mæli. Framganga þess hefur magnað andstöðu og hatur alls almennings í landinu, ekki bara Pastúna. Morð þess á fimmtán börnum um síðustu helgi urðu ekki til að bæta ástandið. Það er tómur þvættingur, að íbúar í landinu styðji hernámið.

Ekki má gleyma, að allar líkur eru á, að Osama bin Laden, leiðtogi Al Kaída, og Múhammeð Ómar, leiðtogi Talíban, leiki enn lausum hala, ýmist í Afganistan eða í Pakistan, sem er bandalagsríki Bandaríkjanna. Hryðjuverkasamtök, sem átti að uppræta, lifa góðu lífi og hlaða að sér nýjum fylgismönnum.Bjánaleg stefna íslenzka utanríkisráðuneytisins í óviðkomandi deilumálum í fjarlægum heimshlutum felur í sér aðild að blóðugri og misheppnaðri styrjaldarstefnu Bandaríkjanna, sem sætir almennri fordæmingu um allan heim, jafnt meðal almennings á Vesturlöndum sem annars staðar.

Vanhugsuð aðild íslenzka utanríkisráðuneytisins að hataðri stríðsstefnu er ekki til þess fallin að slá skjaldborg um fólkið, sem ráðgert er að senda er beint í gin ljónsins.

Jónas Kristjánsson

DV