Kvótagreifarnir halda áfram að taka gísla. Fyrst stöðvaði Þorsteinn Már Baldvinsson vinnslu á Dalvík fyrir erlent dótturfyrirtæki Samherja. Nú hefur Gunnþór Ingvarsson hjá Síldarvinnslu Samherja í Norðfirði bætt við hótun um að reka áhöfn Barðans. Í báðum málum heimta greifarnir, að opinberir aðilar makki rétt við mafíuna. Gefi eftir í dómsmálum og lagafrumvörpum. Tárin eru sjaldan fjarri grátkórnum. Gunnþór hafði ógeðfelldan grátstaf í kverkunum, er hann flutti boðskap gíslatökunnar. Kvótagreifar hafa rænt þjóðina auðlind hennar og eru ákveðnir að verja þýfið með kjafti og klóm. Einnig með gráti.