Gíslataka kærð.

Greinar

Ríkissaksóknari hefur kært tíu starfsmenn Ríkisútvarpsins fyrir að hafa “valdið verulegri truflun á öllum útvarpsrekstri með því að koma í veg fyrir nær allar útsendingar hljóðvarps og allar útsendingar sjónvarps” með skipulagningu vinnustöðvunar í verkfalli opinberra starfsmanna í fyrra.

Þegar þetta gerðist, hafði útkoma dagblaðanna legið niðri um tíma vegna verkfalls. Skyndileg stöðvun útvarps og sjónvarps vegna ágreinings um launagreiðslur olli því, að þjóðin einangraðist. Hver borgari sat í sínu horni og vissi ekki, hvað var að gerast í þjóðfélaginu og umheiminum.

Þetta var óþolandi ástand. Engir hefðbundnir fjölmiðlar gátu veitt almenningi fréttir og aðrar upplýsingar um ástandið í þjóðfélaginu, sem var einkar hverfult um þær mundir. Það var eins og þjóðin hefði skyndilega verið lokuð inni í myrkum klefa, sambandslaus og varnarlaus.

Auk fréttaleysisins varð umræðuleysi í landinu. Á við- kvæmum tíma í þjóðfélaginu lagðist niður opinber umræða, aðhald að stjórnvöldum og gagnrýni á athafnir eða athafnaleysi stjórnvalda og annarra valdaaðila í þjóðfélaginu. Lýðræðið var hreinlega lagt niður um óákveðinn tíma.

Málið var leyst með því, að einkastöðvar spruttu upp hér og þar um landið. Kveikt var ljós í myrkrinu og þjóðin náði aftur sambandi við sjálfa sig og umheiminn. Vopn einangrunarinnar hafði geigað og starfsmenn útvarpsins hófu aftur störf að fréttaflutningi. Það er svo önnur saga, að ríkisvaldið lét loka nýju útvarpsstöðvunum.

Það er líka önnur saga, að fréttastofa hljóðvarpsins fór í gang með bullandi hlutdrægni í fréttaflutningi. Til að byrja með starfaði fréttastofan sem áróðursmálaráðuneyti fyrir opinbera starfsmenn.

Merkasta niðurstaða málsins var þó, að margir borgarar áttuðu sig á, að starfsmenn og stjórnendur Ríkisútvarpsins höfðu fyrirgert rétti stofnunarinnar til einokunar á sinu sviði. Í landinu myndaðist nægur pólitískur vilji til að knýja fram ný lög um frjálsara útvarp.

Einhvern tíma á næsta ári mun sú skipan komast á íslenzkt útvarp, að síðan verður ekki hægt að taka þjóðina í gíslingu með þeim hætti, sem starfsmenn Ríkisútvarpsins gerðu í fyrra. Rekstur útvarps, sjónvarps og kapals verður á svo mörgum höndum, að slíkt ofbeldi verður ókleift.

Hörmulegasti þáttur gíslatökunnar var, að fréttamenn skyldu missa sjónar af stöðu sinni sem fjórðu stéttar í landinu utan við valdastreitu hagsmuna, – að þeir skyldu láta stolt og reisn starfans víkja fyrir persónulegum hagsmunum og svíkja þannig skjólstæðinga sína, fólkið.

Blaðamenn og fréttamenn geta átt í vinnudeilum eins og aðrar stéttir. En slíkir hagsmunir mega aldrei enda í algerri stöðvun á straumi upplýsinga. Það er jafnútilokað og að læknir mundi bregðast eiðstaf sínum. Menn þurfa að vera nógu stórir til að átta sig á þessu.

Starfsmenn Ríkisótvarpsins hafa klagað mál þetta fyrir norrænum samtökum. Einokunarlið norræns útvarps hefur einmitt undanfarna daga verið að skipuleggja ritskoðun á “röngum” skoðunum um mál Suður-Afríku. Segja má, að skel hæfi kjafti, ef þeir taka næst fyrir íslenzka klögumálið.

Kæran á hendur starfsmönnum Ríkisútvarpsins er ekki kúgun af hálfu ríkisvaldsins eða aðför að frjálsri verkalýðshreyfingu. Hún er áminning um, að ekki megi taka gísla í skjóli einokunar og að ekki megi slökkva alveg á straumi upplýsinga og skoðana.

Jónas Kristjánsson

DV