Gjaldþrot Halldórs

Greinar

Ekki má kenna Steingrími Hermannssyni einum um hrun sjávarútvegsins, sem hann segir sjálfur, að nálgist þjóðargjaldþrot. Höfuðpaur miðstýringarinnar, sem hefur leikið sjávarútveginn grátt í tíð nokkurra skaðlegra og síversnandi ríkisstjórna, er Halldór Ásgrímsson.

Steingrímur afsakar sig líka með því að hafa verið í fílabeinsturni, meðan hann fékk ekki að vera forsætisráðherra. En nú er hann orðinn landsfaðir að nýju og ætlar sér að ganga lengra á braut miðstýringarinnar, sem stefnir að gjaldþroti sjávarútvegs og þjóðfélags.

Fastgengisstefna síðustu stjórnar var einn mikilvægasti þátturinn í hruni sjávarútvegsins. Hún hefur löngum verið trúaratriði Steingríms og hin síðustu ár notið óverðskuldaðs stuðnings úr hópi hagfróðra manna. Með henni keypti þjóðin meira vandamál fyrir minna.

Steingrímur og raunar fleiri höfðu séð, að gengislækkanir átust yfirleitt upp á nokkrum tíma. Þær voru yfirleitt undanfari kröftugrar sveiflu verðbólguhjólsins. Því var farið að kenna þeim um ýmislegt, sem aflaga fór í þjóðfélaginu. Þær fengu á sig illt orð.

Þótt segja megi, að áhrif gengislækkana séu slæm, eru þó margfalt verri áhrif gengisfrystingar. Þjóðin hefur lifað af ótal gengislækkanir og eflt hag sinn um leið. En hún hefur ekki þurft nema tveggja ára fastgengisstefnu til að komast í námunda við gjaldþrot Halldórs.

Steingrímur og félagar hans í fyrri ríkisstjórn losnuðu við vandamál gengislækkana með því að fá í staðinn margfalt hættulegri vanda fastgengisstefnu. Með henni neita menn nefnilega að gefast upp fyrir staðreyndum lífsins og berjast um á hæl og hnakka.

Persónugervingur þrjózkunnar er ekki Steingrímur, heldur Halldór Ásgrímsson. Hann mun seint gefast upp í hvaladeilunni, hvernig sem viðrar, því að hann kann ekki að hætta. Hann mun ekki heldur hætta við miðstýringuna, sem hann hefur leitt yfir sjávarútveginn.

Bezt væri auðvitað að hætta þessari gengisskráningu af hálfu stjórnmálamanna. Bezt væri að leyfa genginu að skrá sig sjálft frá degi til dags, án kollhnísanna, sem stjórnmálamenn miðstýringarstefnunnar framleiða, þegar þeir viðurkenna staðreyndir seint og um síðir.

Til þessa er Steingrímur ófáanlegur, enda telur hann, að svart sé hvítt og hvítt sé svart. Að hans mati er það ekki miðstýring ráðherranna, sem hefur gert sjávarútveginn gjaldþrota, heldur stefna frjálshyggjugaura úti í bæ og úti í Efnahagsframfarastofnuninni, OECD.

Sú ágæta stofnun, sem fer í taugar Steingríms, hefur ekki alltaf rétt fyrir sér og fylgist of seint með breyttum aðstæðum á Íslandi. En pappírar hennar segja þó í stórum dráttum ekki aðra sögu en heilbrigð skynsemi sagði, löngu áður en hagfræðingagengin komu til sögunnar.

Efnahagsframfarastofnunin hefur lagt til, að milduð verði miðstýring kvótakerfisins með því að kvótar verði seldir og keyptir á opnum markaði. Þessi sjálfsagða tillaga hljómar eins og grimmasta frjálshyggja í eyrum Steingríms Hermannssonar og Halldórs Ásgrímssonar.

Þessir tveir menn hafa meira eða minna stjórnað sjávarútveginum um langt skeið. Þeim hefur með aðstoð Sjálfstæðisflokks tekizt að breyta góðæri í heimatilbúna kreppu á aðeins tveimur árum. Samkvæmt síðustu upphrópunum Steingríms verður kreppan nú enn hert.

Forsenda þess, að þjóðinni fari að vegna betur að nýju, er að hún losi sig við þessa tvo ráðherra, einkum þó þann, sem hefur límt sig við stól sjávarútvegsins.

Jónas Kristjánsson

DV