Ríkisstjórnin gerir skarpan greinarmun á gjöldum og sköttum. Loforð sitt um að hækka ekki skatta ætlar hún að efna með því að hækka gjöld. Hún segir þetta ólíkt, af því að gjöldin borgi menn fyrir þjónustu, sem þeir fá, en skattarnir fari í þjónustu fyrir aðra.
Af hyggjuviti sínu sér hún, að sumir eiga erfitt með að borga gjöld, alveg eins og þeir hafa hingað til átt erfitt með að borga skatta. Í þeim hópi eru til dæmis ráðherrar, sem setja almennar reglur um skatta af hlunnindum og undanskilja sjálfa sig slíkum reglum.
Ein leiðin til að leysa þennan vanda er að koma á fót skömmtunarstofum, svo sem nú er verið að gera í Tryggingastofnun. Þar getur fólk fengið skírteini, sem veitir undanþágu frá greiðslu fyrir lyf í apótekum. Sælar minningar eru um þessa aðferð frá tímum kreppunnar.
Fólk á nú að útvega sér vottorð frá lækni um, að það þurfi mikið á lyfjum að halda. Gegn slíku vottorði getur það fengið lyfjaskírteini í Tryggingastofnuninni, alveg eins og fólk gat í gamla daga keypt sér mjólk og skó út á skírteini. Þá var það Eysteinn, en nú er það Davíð.
Önnur aðferð, sem hentar ráðherrum, er borga lægri skatta en aðrir af sömu tekjum, er að koma upp útgáfu skírteina í skattakerfinu. Fólk getur þá gengið með skattaskírteini upp á, að það borgi vinnukonuútsvör og hafi því ekki efni á skólagjöldum og sjúkrahúsvist.
Svona kerfi þjónustugjalda með undanþágum samkvæmt skírteinum er að ýmsu leyti svipað stighækkandi tekjusköttum, einkum ef það byggist á skattskýrslum. Munurinn er, að skattar eru greiddir til almannaþarfa, en gjöld eru greidd fyrir þjónustu, sem fólk fær.
Kenningakerfið að baki tilfærslunnar úr sköttum yfir í gjöld byggist á þeirri skoðun, að nauðsynlegt sé, að fólk geri sér grein fyrir verðgildi þjónustunnar, sem það fær úr almannasjóðum. Þetta er stundum kallað Thatcherismi og vekur jafnan hatrammar stjórnmáladeilur.
Hinn hversdagspólitíski kjarni þessa máls er þó sá, að yfirfærsla er ágæt sjónhverfing til að ná meiri peningum af fólki, þegar ráðamenn hafa lofað að hækka ekki skatta. Þeir framleiða þá bara ný gjöld, sem koma í stað nýju skattanna, er annars hefðu verið lagðir á fólk.
Af því að stjórnmálamenn okkar eru svo hjartahlýir, að þeir vilja ekki, að fólk neiti sér vegna fátæktar um lyf eða sjúkrahúsvist eða börnum sínum um skólavist, koma þeir samhliða upp skömmtunar- og skírteinastofum. Gjaldakerfið verður því flóknara en skattakerfið.
Stjórnmálamenn hafa reynslu af opinberu skömmtunarkerfi í öðrum geira félagsmálakerfisins. Það er velferðarríki atvinnulífsins, sem haldið hefur verið uppi með opinberum sjóðum og bönkum, er hafa brennt tugum milljarða og ýtt þjóðinni út á barm gjaldþrots.
Í síðustu viku var ein skömmtunarnefnd hins opinbera að úrskurða, að hin fræga Silfurstjarna og nokkur önnur fiskeldisfyrirtæki yrðu að sinni undanþegin heildargjaldþroti greinarinnar. Þau fá úr sjóðakerfinu sérstaka fyrirgreiðslu, sem önnur fyrirtæki fá ekki.
Óþarfi er að spyrja, hvort peningavanda ríkisins verður að einhverju leyti mætt með því að hætta að fórna 15-20 milljörðum af árlegu ráðstöfunarfé þjóðarinnar til að halda úti uppblæstri og niðurgreiðslum, uppbótum, styrkjum og innflutningsbanni á hefðbundinni búvöru.
Ný gjaldheimta ofan á fyrri skattheimtu er óbrigðult merki um, að ný ríkisstjórn treystir sér ekki til að skera niður fituna á félagsmálastofnun landbúnaðarins.
Jónas Kristjánsson
DV