Glæfrar í vaxtakukli

Greinar

Fát og fum er ekki traustvekjandi, allra sízt þegar það er öllum sýnilegt. Endurteknar tilraunir ríkisstjórnarinnar til bráðabirgðalaga hljóta að efla fyrri kröfur um, að hún segi af sér, þar sem fólki er ljóst, að hún gerði sér litla grein fyrir afleiðingum gerða sinna.

Forsætisráðherra tók af skarið hér í blaðinu á föstudaginn og sagði öllum ráðherrum það mátt vera ljóst, að ákvæði laganna um afnám verðtryggingar átti að gilda bæði um innlán og útlán. Enda er ekki auðvelt að sjá, að unnt sé að verðtryggja bara aðra áttina.

Í þessu tilviki er meiri ástæða til að trúa forsætisráðherra en utanríkisráðherra, sem gerði sér upp fákænsku eins og stundum áður, þegar hann hefur sagt sig gabbaðan og komizt upp með það. Ófært er, að hann geri sér tilbúna einfeldni hvað eftir annað að skálkaskjóli.

Ekki er góð lykt af fullyrðingu utanríkisráðherra um, að Framsóknarflokkurinn hafi alls ekki lagt til, að verðtrygging yrði afnumin strax. Allt fikt ríkisstjórnarinnar við afnám verðtryggingar er upprunnið hjá hinum pólitíska armi Sambands íslenzkra samvinnufélaga.

Framsóknarflokkurinn hefur þann megintilgang í lífinu að vernda Sambandið og fyrirtæki þess, svo og landbúnaðinn og nokkra fleiri skuldara, sem eiga erfitt með að standa undir vöxtum. Þessir aðilar eru góðu vanir og heimta allir, að þjóðin borgi fyrir þá vextina.

Allt frá 1982 hefur verið reynt að koma á raunvöxtum í landinu. Í fyrra náðist svo góður árangur, að spariinnlán voru ekki með nema tæpt 1% í öfuga vexti. Þetta hefur aukið sparnað í landinu frá 1982 úr sem svarar 50% af landsframleiðslu í sem svarar 80% af henni.

Vaxtabjörgun Sambandsins og annarra gæludýra Framsóknarflokksins hefði dregið á nýjan leik úr sparnaði þjóðarinnar, minnkað framboð á lánsfé á innlendum vettvangi og bundið þjóðarhag í hnút. Bankamenn sáu fram á hrun hinna margauglýstu sparireikninga.

Athyglisverður og ömurlegur er þáttur hagfræðingsins, sem Alþýðuflokkurinn hefur gert að bankaráðherra ríkisstjórnarinnar. Hann lét hinn pólitíska arm Sambandsins vaða á skítugum skónum yfir sig og málaflokkinn, þar sem hann ber hina stjórnarskrárlegu ábyrgð.

Þegar allt kerfi fjármálastofnana og hagfræðikunnáttu í þjóðfélaginu rak upp ramakvein, faldi bankaráðherrann sig í tæpa viku. Þegar hornsteinn peningamálanna var að molna, fannst hvergi ráðherra þeirra mála og hafði ekkert um málið að segja í tæpa viku.

Einnig er slæmur þáttur forsætisráðherra, sem hefur látið meira en aðrir slíkir undan þeirri þróun, að starf hans verði valdalítið embætti fundarstjóra, er reyni að bræða saman einhverja niðurstöðu, sama hverja, úr þverstæðum kröfum sér kónganna í ráðherrastólum.

Ekki er málinu lokið, þótt samin hafi verið ný bráðabirgðalög til að afnema hluta hinna fyrri. Eftir lagfæringuna er komið hið sérkennilega ástand, að fjárskuldbindingar eru verðtryggðar inn, en ekki út. Lítill hagfræðiljómi er af því skyni skroppna ráðalagi.

Misræmið milli peningahreyfinga út og inn mun leita jafnvægis í hækkuðum nafnvöxtum útlána. Sambandið og önnur gæludýr munu þá reka sig á, að til skamms tíma er þyngra að búa við háa nafnvexti en verðtryggingu. Framsókn mun því fljótt ókyrrast á nýjan leik.

Komið hefur í ljós, að ríkisstjórnin er skipuð ábyrgðarlitlum kuklurum, sem hneigjast til glæfra í fjármálum og ættu að hætta, áður en þeir hafa bakað meira tjón.

Jónas Kristjánsson

DV