Glæpafyrirtækið Mexíkó

Greinar

Mexíkó er athyglisvert ríki eða fyrirtæki, eitt hið fjölmennasta í heimi, með 75 milljónum íbúa. Það hefur í 57 ár verið í eigu stjórnmálaflokks, sem nefnir sig Byltingarstofnunarflokkinn. Forseti ríkisins eða forstjóri fyrirtækisins heitir Miguel de la Madrid Hurtado.

De la Madrid baðar sig í alþjóðlegu sviðsljósi, svo sem gerðu nálægustu fyrirrennarar hans, Portillo og Echeverría. Hinn síðastnefndi gekk svo langt að reyna að verða forstjóri Sameinuðu þjóðanna að tilstuðlan ríkja þriðja heimsins. Ekki tókst það, sem betur fer.

Um daginn var Madrid gestgjafi sexmannaklúbbsins, þar sem hann þáði faðmlög Gandhis frá Indlandi, Carlsons frá Svíþjóð, Alfonsíns frá Argentínu og tveggja smærri ljósa alheimssviðsins. Vikunni síðar var hann í Washington að þiggja hrós Reagans fyrir hagvizku sína.

Staðreyndin er hins vegar, að Madrid þessi hefur eins og fyrirrennararnir mergsogið þjóðina og stjórnað ríkinu eins og þrælabúðum. Hann drottnar ekki frekar en fyrirrennararnir í umboði þjóðarinnar, því að kosningar í landinu eru ekkert annað en skrípaleikur.

Algengasta kosningasvindl Madrids er að meina viðurkenndum eftirlitsmönnum andstöðuflokkanna aðgang að kjörstöðum og troða svo útfylltum kjörseðlum í kassana, að fyrstu morgunkjósendur geta ekki komið seðlum sínum í þá. Þetta er hin almenna regla.

Í júlí í sumar kom Madrid þannig í veg fyrir, að hægri flokkur næði völdum í norðurríkinu Chihuahua. Nokkru síðar, í ágúst, kom hann á sama hátt í veg fyrir, að vinstri flokkur næði sveitarstjórnarvöldum í suðurríkinu Oaxaca. Þannig heldur Madrid völdum.

Biskupar í landinu hafa sameinazt um messufall út af siðlausum kosningasvikum Madrids. Rithöfundur á borð við Octavio Paz hefur formdæmt þau. Og útlendingar hafa beinlínis horft á þau. Í raun er svindl Madrids verra en Marcosar á Filippseyjum á sínum tíma.

Eiturlyfjaframleiðsla og -smygl er stundað í skjóli ráðamanna og sumpart á vegum þeirra. Blaðamenn, ritstjórar og útgefendur, sem fjalla um það, eru einfaldlega skotnir til bana úti á götu um hábjartan dag. Þannig fór í borgunum Matamoros, Sinaola og Reynosa.

Flokkur Madrids hefur þjóðnýtt mikilvægustu hluta atvinnulífsins. Þar hefur gæðingum flokksins verið hrúgað hverjum ofan á annan. Þeir stela öllu steini léttara. Þess vegna eru fyrirtækin á hausnum, atvinnulífið á hausnum, Mexíkó sem ríki á hausnum.

Dæmi um svívirðu Byltingarstofnunarflokksins er verkalýðsrekandi hans, Fidel Velázquez, sem sagt var ítarlega frá hér í blaðinu 26. júlí. Þar var skýrt, hvernig hann misnotar aðstöðuna og heldur fólki í sárustu eymd, líka þeim, sem vinna tvöfaldan vinnudag.

Umheimurinn fór fyrst að gera sér ljóst, hvernig ástandið væri, þegar sviðsljós heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu beindist að landinu. Þeir leikar hafa ekki orðið Madrid sú upphefð, sem að var stefnt, heldur varpað ljósi á sukkið, græðgina og fúlmennskuna.

Vestrænir bankar, einkum bandarískir, hafa lánað Mexíkó sem svarar 4000 milljörðum íslenzkra króna, vitandi vits, að töluverður hluti upphæðarinnar kom landinu ekki að gagni, heldur rann í vasa gæðinganna. Mexíkanar bera enga ábyrgð á þessari skuld.

En hinn ábyrgi Madrid baðar sig til skiptis í ljósi Carlsons frá Svíþjóð og Reagans frá Bandaríkjunum. Við skulum bara segja: Svei þeim öllum þremur.

Jónas Kristjánsson

DV