Glæpamaður framseldur

Greinar

Framsal Slobodan Milosevic til stríðsglæpadómstólsins í Haag markar þáttaskil í sigurgöngu lýðræðis og mannréttinda í heiminum. Einn af verstu glæpamönnum Evrópu er kominn bak við lás og slá og verður látinn svara til saka fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu.

Treglega hefur gengið að ná þeim, sem mesta ábyrgð bera á óhæfuverkum í arftakaríkjum Júgóslavíu. Friðargæzlusveitir Atlantshafsbandalagsins hafa ekki enn mannað sig upp í að handtaka Radovan Karadzik og vestræn stjórnvöld hafa þvælzt fyrir dómstólnum í Haag.

Helzti vandi vestræns lýðræðis er, að ríkisstjórnir sumra öflugustu ríkja þess vilja stundum ekki styðja lýðræði og mannréttindi í þriðja heiminum vegna meintra stundarhagsmuna. Þau beita ekki áhrifum sínum til að útbreiða árangursríkasta þjóðskipulag jarðarinnar.

Reynslan sýnir þó, að Vesturlönd hafa langtímahagsmuni af stuðningi við þættina, sem mynda vestrænt lýðræði, svo sem gegnsæi í stjórnsýslu, lög og rétt, frjálsar kosningar, dreifingu valdsins og frelsi fólks til að tjá sig og afla upplýsinga, koma saman og mynda samtök.

Gott er að eiga viðskipti og hafa samskipti í löndum, þar sem þessar undirstöður lýðræðis að vestrænum hætti eru í heiðri hafðar. Þar gilda leikreglur, sem farið er eftir og þar myndast traust í kaupsýslu og öðrum mannlegum samskiptum. Því borgar sig að styðja og efla lýðræði.

Sigurför lýðræðis í Mið-Evrópu og suður eftir Balkanskaga einkenndi þróun alþjóðamála á síðasta áratug. Þar hefur myndazt jarðvegur og svigrúm til að þróa einstaka þætti lýðræðis að vestrænum hætti og draga úr spillingu, sem enn er allt of mikil á þessum slóðum.

Handtaka og framsal Milosevic sýnir, að stjórnvöld í Serbíu eru með stuðningi meirihluta kjósenda reiðubúin að opna glugga inn í glæpsamlega fortíð og draga út óþrifnaðinn, svo að Serbar geti ákveðið, að martröð að hætti Milosevic gerist aldrei aftur á þeirra slóðum.

Svipuð sigurför lýðræðis að vestrænum hætti stendur yfir í Rómönsku Ameríku, þótt hægar fari. Vegna djarfrar framgöngu saksóknara á fjarlægum Spáni á Augusto Pinochet í vök að verjast í Chile þar sem verið er að gera upp fortíðina og kortleggja óhæfuverk hans.

Fyrir nokkrum dögum var Vladimiro Montesinos framseldur til Perú, þar sem hann verður væntanlega látinn svara til saka fyrir ótrúlega spillingu í skjóli Alberto Fujimori, fyrrum forseta landsins, sem nú hírist landflótta í Japan og verður framseldur þaðan um síðir.

Uppgjörið við fortíðina er mikilvægt í öllum löndum, sem eru að feta sig í átt til lýðræðis að vestrænum hætti. Menn fá tækifæri til að gera upp viðhorf sín og ákveða, hver fyrir sig, að óhæfan gerist aldrei aftur. Vestrænir stuðningsmenn harðstjóra fá verðskulduð kjaftshögg.

Óhjákvæmilegt er að glæpaslóðir verði raktar til áhrifamikilla stofnana og einstaklinga á Vesturlöndum. Innan stórvelda lýðræðisríkjanna mun fara fram hliðstætt uppgjör og í þriðja heiminum. Margir munu neyðast til að læðast með veggjum, þegar fréttirnar fara að leka.

Þannig verður ekki aðeins hreinsað til á nýjum svæðum vestræns lýðræðis, heldur einnig í kjarnalöndum þess. Minnka mun svigrúm skammtímamanna til stuðnings við glæpi og harðstjórn í þriðja heiminum. Lýðræði mun því knýja fastar að dyrum víðar í þriðja heiminum.

Við framsal Milosevic í hendur stríðsglæpadómstólsins í Haag rennur kalt vatn milli skinns og hörunds ýmissa harðstjóra, sem ranglega hafa talið sér alla vegi færa.

Jónas Kristjánsson

DV