Glatað jarðsamband

Greinar

Samkvæmt kenningu nýja heilbrigðisráðherrans eru góð mál jafnan óvinsæl. Hann var þá að þrjózkast við að verja hústurna í miðbæ Hafnarfjarðar, sem helmingur kjósenda hafði mótmælt skriflega. Nú kemst hann í félagsskap, þar sem svona kenning hefur hljómgrunn.

Formenn stjórnarflokkanna hafa notað þessa kenningu til að afsaka lítið fylgi og mikla andstöðu. Þessi hroki er sjúkdómur, sem sækir á suma stjórnmálamenn, sem komast áfram. Hann leiðir venjulega til þess, að stjórnmálamenn glata jarðsambandi og síðar völdum.

Þótt sumir menn hafi reynzt fljótir að svara fyrir sig í kappræðu og snúa út úr gagnrýni, ætti það ekki að gefa þeim tilefni til að ímynda sér, að þeir séu merkari og gáfaðri en annað fólk, og því síður til að telja sér trú um, að þeir geti stjórnað ríkinu á farsælan hátt.

Fyrirlitning á kjósendum er hættulegur sjúkdómur, jafnvel þótt raða megi upp dæmum um, að þeir séu fljótir að gleyma og sætti sig við einkavinavæðingu og aðra spillingu ráðamanna. Hugsanlega er hægt að ganga fram af fólki, þótt það hafi reynzt seinþreytt til vandræða.

Skoðanakannanir benda til, að hinir sjálfsánægðu leiðtogar stjórnar og stjórnarandstöðu séu orðnir afar óvinsælir. Fólk ber ekki lengur traust til þeirra, sem stunda pólitískar burtreiðar og slá um sig með slagorðum og útúrsnúningum í málfundastíl frá menntaskólaárunum.

Þumbaralegur Halldór Ásgrímsson nýtur meira trausts en skrumkenndur Steingrímur Hermannsson. Alvörugefin Jóhanna Sigurðardóttir nýtur meira trausts en gleiðgosalegur Jón Baldvin Hannibalsson. Þetta eru merki þess, að kjósendur séu að læra af reynslunni.

Ólafur Ragnar Grímsson er óvinsæll, en nýtur skorts á hæfileikafólki í flokki sínum. Það skjól hefur Davíð Oddsson ekki í sama mæli, enda nýtur broslaus Þorsteinn Pálsson meira trausts en borgarstjórastjarnan, er sumir töldu vera eins konar Ólaf Thors endurborinn.

Menn virtu Halldór Ásgrímsson fyrir þrjózkuna, þegar hann var sjávarútvegsráðherra og virðast að sinni vilja láta Þorstein Pálsson njóta hins sama. Jóhanna Sigurðardóttir nýtur sömuleiðis virðingar fyrir að berjast af hörku fyrir því, sem hún telur vera grundvallarsjónarmið.

Með þessu er alls ekki sagt, að Halldór Ásgrímsson, Þorsteinn Pálsson og Jóhanna Sigurðardóttir hafi jafnan réttar fyrir sér en Ólafur Ragnar Grímsson, Steingrímur Hermannsson, Davíð Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson. En stíll hinna síðarnefndu er að eldast illa.

Faðmlög sjónvarps hafa stuðlað að hnignun og hruni flokksformanna og helztu ráðherra. Fréttatímar eru að nokkru byggðir upp af daglegum viðtölum við nokkra menn, sem hafa munninn fyrir neðan nefið og komast upp með útúrsnúninga í málfundastíl menntaskóla.

Smám saman verða áhorfendur leiðir á þessu stagli og fara um leið að sjá í gegnum málfundatæknina. En þá eru hinir sjálfumglöðu orðnir fastir í sjónvarpsnetinu, geta hvorki hætt að blaðra né breytt framgöngu sinni. Traustið lekur smám saman burt og kemur ekki aftur.

Það er síður en svo gott veganesti fyrir nýja ráðherra að vera þekktir að svipuðum stælum og þeim, sem hafa gert þjóðina afhuga leiðtogum stjórnmálaflokkanna. Hvort tveggja er að verða úrelt, málfundatækni menntaskólaáranna og jafnvel fyrirlitningin á kjósendum.

Svo kann að fara, að þjóðin missi skyndilega þolinmæðina á sama hátt og Ítalir. Þegar það gerist, verður gamla og málglaða stjórnmálaaðlinum sópað af borðinu.

Jónas Kristjánsson

DV