Gleðidagur í Eyjum

Greinar

,,Heimferðin er hafin” var fyrirsögn leiðara Vísis á laugardaginn. Þar var rætt um, að Vestmannaeyingar væru farnir að undirbúa heimferð sína út í Eyjar og að nokkrar fjölskyldur væru þegar fluttar. Í þeirri viku, sem síðan er liðin, hefur greinilega komið í ljós, að Vísir var ekki óhóflega bjartsýnn. Heimferð Eyjamanna er ekki aðeins hafin, heldur hafin af fullum krafti.

Margir tugir fjölskyldna eru þesar fluttir aftur til Eyja, og mikill fjöldi annarra fjölskyldna vinnur nú að því að koma lausum eignum sínum heim. Bæjaryfirvöld í Eyjum sjá fram á, að nú þarf með miklum hraða að koma þar aftur upp verzlun og annarri nauðsynlegri þjónustu.

Jarðfræðingar hafa farið ofan í gíginn og úrskurðað, að gosinu væri lokið. Enn stafar þó hættu af eiturgasi, svo að fólki hefur verið ráðlagt að fara varlega. Þá er enn nokkur hætta á sandfoki, því að hreinsun bæjarins er enn í fullum gangi og verður næstu mánuði.

Bygging íbúðarhúsa er þegar hafin, og iðnaðarmenn reikna með mikilli byggingavinnu í Eyjum á næstu mánuðum. Skipulagt hefur verið nýtt hverfi og lagðar götur um það. Bæjarstjórnin vill, að eitthvað af innfluttu Viðlagasjóðshúsunum verði reist úti í Eyjum til að létta á húsnæðisvandræðunum, sem fyrirsjáanleg eru, þegar Vestmannaeyingar byrja að flykkjast heim.

Rafmagnsskorturinn er mesti þröskuldurinn á heimleið Eyjamanna. Stóru fyrirtækin, sem veita mestu atvinnuna, geta ekki hafið starfrækslu fyrr en séð hefur verið fyrir auknu rafmagni. Mikil bót fæst í lok þessa mánaðar, þegar bráðabirgðatengingu rafstrengsins frá landi og uppsetningu olíustöðvar lýkur. Tvær olíustöðvar bætast svo við kerfið fyrrihluta vetrar, um þær mundir, er hreinsun bæjarins á að vera lokið.

Þrátt fyrir allar hörmungarnar hefur gosið einnig haft sínar jákvæðu hliðar. Landrýmið hefur aukizt verulega og efni til vega og bygginga hefur einnig aukizt. Einna mikilvægast er, að nýja hraunið skýlir vel innsiglingunni í höfnina og skapar möguleika á mikilli stækkun hafnarinnar. Möguleikar Vestmannaeyja sem útgerðarbæjar hafa því vaxið að marki.

Eyjamanna bíða nú stórkostleg verkefni heima fyrir næstu daga, vikur og mánuði. Þeir þurfa að byggja aftur upp opinbera þjónustu, opna verzlanirog þjónustufyrirtæki, um leið og undirstöðuatvinnuvegirnir, útgerð og fiskvinnsla, taka aftur til starfa. Þetta verður hinum heimkomnu ánægjulegt verk.

Þrátt fyrir svart útlit á stundum hefur vörnin aldrei bilað. Hið frábæra varnarstríð gegn náttúruöflunum undanfarna mánuði hefur borið þann árangur, að nú getur lífið haldið aftur innreið sína í Vestmannaeyjar með eðlilegum hætti. Vörninni hefur verið snúið upp í sókn. Eyjar munu haldast í byggð og meirihluti íbúanna mun flytjast þangað aftur. Þjóðfélaginu í heild hefur verið forðað frá miklu tjóni.

Það eru því gleðidagar í Eyjum um þessar mundir.

Jónas Kristjánsson

Vísir