Gleyma afrekum sínum

Punktar

HEILSÍÐU auglýsing Framsóknarflokksins segir okkur, að flokkurinn fylgi okkur frá vöggu til grafar, allt frá hönnunarmiðstöð um vaxtarsamninga til lýðheilsu, hvað sem öll þessi hugtök þýða. Stóri bróðir hefur ætíð séð um þig.

LISTI AFREKA Framsóknarflokksins er þó ekki tæmandi. Þar vantar ein mestu tímamót Íslandssögunnar, þegar Halldór Ásgrímsson ákvað með samþykki Davíðs Oddssonar að fara í beint stríð gegn Afganistan og óbeint stríð við Írak.

ENGINN VAR í tæka tíð spurður álits á afreki Halldórs og ekki var neinn spurður, er hann ákvað að láta fínimannsleiki sína erlendis ná hámarki í sendiherrum í öðru hverju krummaskuði og í vonarsæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

KANNSKI VILL Framsókn ekki kannast við afrek formanns síns í útlöndum. En einnig vantar helztu afrekin hér heima fyrir, þegar Framsókn með Halldór og Valgerði Sverrisdóttur í broddi fylkingar ákváðu að virkja friðland Þjórsárvera.

ENGUM BLÖÐUM er um það að fletta, að Kárahnjúkavirkjun var landráð, sem fleiri komu að en ráðherrar Framsóknar, til dæmis Samfylkingin og Reykjavíkurlistinn. Enn verri eru þau landráð, sem Framsókn fyrirhugar í heimsfrægum Þjórsáverum.

EKKI SKULU nefnd mörg fleiri afrek, sem hvergi eru talin upp í auglýsingu flokksins, aðeins nefna, að ekki er þar minnst á, að frá upphafi til dagsins í dag hefur Framsókn tekið þrönga sérhagsmuni í landbúnaði fram yfir almannahagsmuni.

KOSNINGABARÁTTA Framsóknar er hafin með auglýsingu þessari, þótt hálft annað ár sé til næstu þingkosninga. Nokkuð snemmt er að telja fólki trú um, að Framsókn sé aðeins í sætum smámálum á borð við hönnunarmiðstöð og vaxtarsamninga.

NÆGUR TÍMI verður til að rifja upp fínimannsleiki Halldórs í útlöndum og landráð hans við Þjórsárver.

DV