Glöp Alberts og Þorsteins

Greinar

Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, vissi fyrir nokkrum vikum af bréfi skattrannsóknastjóra til Alberts Guðmundssonar, iðnaðarráðherra og fyrsta manns á framboðslista flokksins í Reykjavík. Hann vissi af bréfinu fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins.

Á landsfundinum var rétti staðurinn og rétta stundin til að ræða alvarleg mál á borð við stöðu Alberts. Ekkert gerðist í máli hans frá því fyrir landsfund og fram að blaðamannafundi Þorsteins á fimmtudaginn var, þegar formaðurinn sagði, að málið væri alvarlegt.

Gagnrýnivert hlýtur að teljast að taka ekki upp á landsfundinum svo alvarlegt mál fyrir flokkinn, úr því að formaðurinn vissi þá þegar um málið. Ef deilur hefðu risið þar vegna þessa, hefði Þorsteinn að vísu ekki fengið rússneska endurkosningu sem formaður.

En hann átti að telja sig nógu sterkan á fundinum til að taka svokallaðan Albertsvanda flokksins föstum tökum, ­ til að taka slaginn á réttum stað og tíma. Hann kynni að hafa fengið dálítið af mótatkvæðum, en ekki verið sakaður um skort á forustu og hugrekki.

Hins vegar er Þorsteinn ranglega sakaður um að hafa skipulagt og tímasett aðför að Albert. Hann var að vísu búinn að sá til fjölmiðlunar með því að kynna málið í hriplekum þingflokki sjálfstæðismanna. En hann gat ekki séð fyrir, hvernig atburðarásin yrði.

Þorsteinn neyddist einfaldlega til að halda blaðamannafundinn á fimmtudaginn. Það var ekki heldur honum að kenna, að fjölmiðlar litu réttilega á fundinn sem stórfrétt. Og tímasetningin hindrar Albertsmenn ekki í sérframboði í tæka tíð, ef þeir telja þess þörf.

Þorsteinn verður því ekki sakaður um aðför að Albert. Hann verður hins vegar sakaður um skort á dómgreind og hugrekki á landsfundi flokks síns, svo og um að hafa farið aftan að landsfundarmönnum og þjóðinni með því að geyma til seinni tíma að ræða málið.

Albert er ekki síður gagnrýniverður. Löng hefð er fyrir, bæði hér á landi og í nágrannalöndunum, að ráðherrar segi af sér, ef þeir eru grunaðir um misferli, enda þótt saklausir séu. Tveir íslenzkir ráðherrar hafa gert það og annar tók sæti sitt á ný eftir sýknu Hæstaréttar.

Raunar átti Albert að segja af sér fyrr í vetur, þegar í ljós kom, að hann hafði tekið við gjöfum og endurgreiðslum frá Hafskipi. Þá var hann kominn í kreppu, svo að heppilegast var fyrir hann og lýðræðið, að hann sæti ekki að sinni við stjórnvöl í ráðuneyti.

Öðru máli gegnir um fyrsta sæti hans á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Því sæti náði hann eftir að upplýst var um gjafirnar og endurgreiðslurnar. Því ber að líta svo á, að þátttakendur í prófkjörinu hafi viljað Albert, þrátt fyrir skuggann, sem á hann bar.

Þótt Albert eigi að segja af sér sem ráðherra, á hann ekki að segja lausu sætinu á framboðslistanum. Og fulltrúaráðið á ekki að svipta hann því sæti. Hann fékk traust sjálfstæðismanna til þess sætis, þrátt fyrir vandamálin, sem hann var kominn í fyrir prófkjör.

Þannig má segja um þá félaga báða, að sumt hafa þeir gert rétt og annað rangt í efni þessu. Þorsteinn hlaut að fjalla opinberlega um málið. En hann átti að gera það strax á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Albert átti að segja af sér ráðherraembætti fyrr í vetur og á nú að gera það, sóma síns vegna. En hann á ekki að verða við kröfum um að segja af sér fyrsta sæti á lista flokks síns í Reykjavík.

Jónas Kristjánsson

DV