Góð Grænlandstillaga.

Greinar

Væntanlega verður í dag samþykkt samhljóða á Alþingi tillaga Eyjólfs Konráðs Jónssonar og ellefu annarra þingmanna úr öllum þingflokkum um ræktun sameiginlegra hagsmuna með Grænlendingum, sérstaklega í fiskimálum.

Stefnumörkun Alþingis í dag getur orðið til að efla samskiptin við Grænlendinga hraðar en verið hefur á undanförnum árum. Við höfum verið of seinir að átta okkur á skyldum okkar og samstarfsmöguleikum á þeim vettvangi.

Fyrir nokkrum árum efndi Alþingi til Grænlandssjóðs til eflingar kynnisferða, námsdvala, listsýninga, íþróttasýninga og annarra hliðstæðra samskipta Grænlendinga og Íslendinga. Þennan sjóð þarf nú að efla til muna.

Grænlendingar hafa á undanförnum árum verið að fóta sig á heimastjórn og eru nú á leið úr Efnahagsbandalaginu. Við eigum að reyna að verða þeim að liði í tilraunum þeirra til að leysa ýmis vandamál á þessari braut.

Grænlendingar hafa notið verulegra framlaga úr ríkissjóði Danmerkur og sjóðum Efnahagsbandalagsins. Þetta hefur ekki nýtzt þeim að fullu, meðal annars vegna skorts á jafnstöðu gagnvart Dönum í menntun og atvinnulífi.

Þá hafa dönsk stjórnvöld notað fiskveiðimið Grænlendinga sem skiptimynt í samningum sínum um bætt skilyrði danskra landbúnaðarafurða á markaði Efnahagsbandalagsins. Grænlendingar urðu að biðja í Bruxelles um að fá að veiða á eigin miðum.

Nú þegar Grænlendingar eru að losna undan þessari nýlendukúgun Efnahagsbandalagsins, býðst það til að taka á leigu fimm ára aflakvóta við Grænland fyrir sem svarar 450 milljónum íslenzkra króna á ári. Í kvótanum eru 23,5 þúsund tonn af þorski og rúmlega 63 þúsund tonn af öðrum sjávarafla.

Þetta eru auðvitað of miklir kvótar fyrir of lítið fé. Auk þess fela þeir í sér rányrkju á grænlenzkum miðum. En bandalagið býður þetta, af því að það telur Grænlendinga ekki hafa efni á að hafna molunum af borði þess.

Það veikir stöðu Grænlendinga, að þeir búa nú við þriðja kuldaveturinn í röð og að spáð er miklum hafís við landið mörg ár fram í tímann. Það spillir möguleikum þeirra til að afla sér viðurværis á sjó og landi.

Okkur ber að veita Grænlendingum siðferðilegan, menntunarlegan og fjárhagslegan stuðning við að standast freistingar Efnahagsbandalagsins og við að taka í þess stað yfirráð fiskimiðanna í þeirra eigin hendur.

Þetta fer saman við hagsmuni okkar af, að Efnahagsbandalagið komist ekki upp með rányrkju á fiskimiðum, sem á stóru svæði liggja að fiskveiðilögsögu Íslands. Við þurfum að stuðla að verndun fiskistofna á þessum miðum.

Samstarf okkar við Grænlendinga um skynsamlega nýtingu fiskimiða á öllu hafinu milli landanna ætti raunar að vera þáttur í víðtæku samstarfi um slíka nýtingu allt frá Noregi til Kanada og suður yfir Færeyjar. Við erum á miðju þessu svæði.

Grænlendingum getum við boðið upp á ókeypis þjálfun og menntun í fiskveiðum, fiskvinnslu, iðnaði og öðrum störfum, sem fylgja þjóðfélagsháttum nútímans. Við getum á ýmsan hátt aðstoðað þá við að koma í veg fyrir rányrkju á fiskimiðum.

Allra brýnast er að bregðast skjótt gegn tilraunum Efnahagsbandalagsins til að koma sér fyrir í grænlenzkri fiskveiðilögsögu. Samþykkt Grænlandstillögunnar á Alþingi er mikilvægt skref í þá átt.

Jónas Kristjánsson.

DV