Komin er fram á Alþingi ágæt málamiðlunartillaga, sem eyðir flestum göllum lífeyrisfrumvarps fjámálaráðuneytisins og tekur tillit til málefnalegra þátta hagsmunastreitunnar um frumvarpið. Líklegt er, að þessi málamiðlun í efnahags- og viðskiptanefnd nái fram að ganga.
Eini stóri gallinn, sem eftir situr, er óviðráðanlegur, af því að hann tengist loforðum stjórvalda við gerð kjarasamninganna í vor. Aðilar vinnumarkaðarins vilja vernda núverandi lífeyrissjóði og einkarétt þeirra á að fara með lífeyri fólks í viðkomandi starfsgreinum.
Betra væri að koma á frelsi og samkeppni milli lífeyrissjóða, svo að fólk geti flutt sig úr lífeyrissjóðum, sem eru dýrir í rekstri og standa sig illa, yfir í lífeyrissjóði, sem eru vel reknir og standa sig vel. Slíkt mundi líka leiða til, að lakari lífeyrissjóðir rynnu inn í hina betri.
Hér er verið að tala um hina hefðbundnu sameignarsjóði, sem fela í sér ábyrgð á lífeyrisgreiðslum, hvort sem þær standa yfir í skamman eða langan tíma. Þetta hefur verið hlutverk lífeyrissjóða hingað til og er raunar einn af mikilvægustu þáttum íslenzka velferðarríkisins.
Sameiginlegt hagsmunamál ríkissjóðs og samtaka vinnumarkaðarins er, að þetta kerfi verði áfram notað. Það veitir félagsmálaberserkjum atvinnu við að ráðskast með fé. Og það léttir byrðum af ríkissjóði, sem annars yrði sjálfur að fjármagna aldrað fólk og öryrkja.
Ríkissjóður gæti varið sína hasmuni, þótt fólk fengi frelsi til að velja milli sameignarsjóða. Slíkt mundi hins vegar rýra tækifæri félagsmálaberserkja til að sitja í stjórnum lífeyrissjóða, af því að sjóðir fjármagnsfyrirtækjanna mundu sækja inn á markað lífeyrissjóðanna.
Með málamiðluninni er samningsbundnum sparnaði fólks skipt í tvennt. Annars vegar er hinn hefðbundni lífeyrir í sameignarsjóðum, sem hefur forgang, unz náð hefur verið 12.000 króna framlagi á mánuði. Því, sem umfram er, má ráðstafa frjálst í séreignasjóði.
Núverandi lífeyrissjóðir eiga samkvæmt málamiðluninni að geta stofnað séreignadeildir. Séreignasjóðirnir eiga að geta stofnað sameignardeildir. Þannig myndast almenn og víðtæk samkeppni á markaðnum um allan lífeyrissparnað umfram 12.000 krónur á mánuði.
Talan 12.000 krónur er fundin með því að meta, hvað sameignarsjóðir þurfi mikla peninga til að standa undir hóflegum elli- og örorkulífeyri. Slík tala verður alltaf umdeilanleg og þarf raunar að fylgja verðlagi hvers tíma. Þessi tala er sennilega í lægri kanti þess, sem þarf.
Með núgildandi 10% reglu næst 12.000 króna mánaðarlegur sparnaður af 120.000 króna mánaðarlaunum. Þar sem mikill fjöldi fólks hefur hærri lífeyristengdar tekjur, opnast möguleikar á víðtækum sparnaði á vegum þeirra séreignasjóða, sem bezt ávaxta peninga almennings.
Eðli málsins samkvæmt ávaxta séreignasjóðir betur en sameignarsjóðir. Hinir fyrrnefndu þurfa ekki að taka tillit til íþyngjandi atriða, sem hinir síðarnefndu þurfa að gera. Skynsamlegt er, að lífeyrissparnaði í þjóðfélaginu sé skipt milli þessara tveggja sparnaðartegunda.
Gangur þessa máls er gott dæmi um ágæti lýðræðis sem rekstrarforms þjóðfélags. Eðlilegt er, að frumvörp komi gölluð úr ráðuneytum, af því að þar eru menn ekki frekar alvitrir en annars staðar. Málið hefur síðan fengið víðtæka kynningu og þrýstihópar hafa tjáð sig.
Í framhaldi er komin fram í þingnefnd tillaga til málamiðlunar, sem virðist skynsamleg í stöðunni og virðist geta leitt til mikilvægra umbóta á velferðarkerfinu.
Jónas Kristjánsson
DV