Góð málamiðlun

Greinar

Eðlilegt er, að þingmenn, sem sækja fylgi sitt einkum til gömlu kjördæmanna, sem náðu yfir einstakar sýslur, séu ekki sáttir við, að þær sýslur verði litlir og minni hlutar af allt öðrum kjördæmum en áður. Þess vegna er Páll Pétursson ráðherra óánægður þessa dagana.

Sérstök nefnd áhrifamanna allra þingflokka hefur orðið sammála um tillögur að nýjum kosningalögum og nýrri kjördæmaskipan, sem fela meðal annars í sér miklar breytingar á mörkum kjördæma til þess að tryggja, að enginn hafi minna en hálfan atkvæðisrétt.

Til þess að ná þessu hálfa réttlæti eru Húnavatnssýslur skildar frá Norðurlandi og settar með Vesturlandi og Vestfjörðum; Austur-Skaftafellssýsla skilin frá Austurlandi og sett með Suðurlandi; og Suðurnes skilin frá Reykjaneskjördæmi og sett með Suðurlandi.

Svo virðist sem Hornfirðingar séu ekki alveg andvígir því að flytjast frá Austurlandi til Suðurlands. Suðurnesjamenn eru meiri efasemdamenn í málinu, en verða þó svo fjölmennur hluti hins stækkaða Suðurlandskjördæmis, að þeir eiga að geta sætzt á málið.

Helzt eru það Húnvetningar, sem eiga erfitt með að vera slitnir úr hefðbundnu Norðurlandssamhengi og vera settir sem áhrifalítill minnihluti með Vestlendingum og Vestfirðingum. Þess vegna hefur Páll Pétursson á Höllustöðum orðið höfuðandstæðingur tillagnanna.

Í þjóðfélaginu og flestum stjórnmálaflokkunum er hörð andstaða gegn algerri jöfnun atkvæðisréttar. Tillaga, sem felur í sér minnkun mismunar niður í eitt atkvæði á dreifbýliskjósanda og hálft atkvæði á þéttbýliskjósanda, er skynsamleg málamiðlun í stöðunni.

Skýrari línur fengjust auðvitað, ef komið yrði á fót einmenningskjördæmum eða allt landið gert að einu kjördæmi. Fyrri aðferðin mundi leiða til meira misvægis atkvæðisréttar, meira misvægis á þingfylgi flokka og efla stöðu smákónganna, hvers í sínu héraði.

Sanngjarnast væri eitt kjördæmi fyrir eina þjóð í einu landi. Þá væri atkvæðisréttur þjóðarinnar jafn og þingstyrkur flokkanna í samræmi við kjörfylgi þeirra. Samgöngur innan slíks kjördæmis eru auðveldari en samgöngur voru í litlum kjördæmum gamla tímans.

Þar sem hvorki er stuðningur við einmenningskjördæmi né eitt kjördæmi, varð að finna málmiðlum um leið á borð við þá, sem kjördæma- og kosningalaganefndin hefur valið sér. Sem málamiðlun er tillagan mun einfaldari og betri en núverandi fyrirkomulag.

Þingmannafjöldi kjördæmanna verður svipaður og úthlutun jöfnunarsæta verður þess vegna tiltölulega einföld. Til dæmis verður ekki þörf fyrir flakkarann, sem er eins konar jóker í núverandi kerfi. Nýja kerfið er í heild gegnsærra og þess vegna heilbrigðara.

Nefnin gerir af sanngirni ráð fyrir, að flokkar geti fengið jöfnunarþingmenn, þótt þeir hafi ekki kjördæmakosna þingmenn, ef þeir ná 5% fylgi yfir landið í heild. Þetta felur í sér, að 5% fylgi er talið skilja milli kraðaks annars vegar og lýðræðis hins vegar.

Í tillögunum er gert ráð fyrir, að lagðar séu í kerfið einfaldari leiðir en nú til að breyta mörkum kjördæma eða þingmannafjölda kjördæma, ef misvægi atkvæðisréttar vex að nýju upp fyrir eitt atkvæði á móti hálfu. Minna ætti því að verða um kollsteypur í reglum.

Ef frá eru taldar ófullkomnar tillögur um röðun fólks á framboðslista og breytingar á þeirri röð, eru niðurstöður nefndarinnar góð málamiðlun í stöðunni.

Jónas Kristjánsson

DV