Góð vísa og oft kveðin

Greinar

Þar sem smjör drýpur af hverju strái, bleikir akrar bylgjast og tré svigna undir ávöxtum, í löndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, starfa aðeins 2,8% þjóðanna að meðaltali við landbúnað. Eru þá fiskveiðar innifaldar í landbúnaði samkvæmt alþjóðlegri hefð.

Hér við jaðar freðmýrabeltisins norður við heimskautsbaug, þar sem vetur ríkir hálft árið, akrar eru fáir og ávextir vaxa aðeins í gróðurhúsum, starfa hlutfallslega helmingi fleiri við landbúnað, 5,6% þjóðarinnar. Er þá 4,5% atvinna í fiskveiðum ekki talin með.

Af þessum hlutfallstölum er ljóst, að Íslendingar leggja meiri áherzlu en aðrir á að halda uppi störfum í landbúnaði, þótt hann búi við svo erfið skilyrði, að hann getur lítið annað framleitt en kjöt og mjólk og grænmeti, en hvorki korn né ávexti eins og í tempruðu löndunum.

Meðan auðþjóðir heimsins framleiða ekki aðeins meira en nóg af kjöti og mjólk og grænmeti, heldur einnig meira en nóg af korni og ávöxtum og fiski, með aðeins 2,8% vinnuafls síns, erum við að framleiða nærri eingöngu kjöt og mjólk með 5,6% vinnuafls okkar.

Í samanburðarhagfræði er algengt að nota hlutfall vinnuafls í landbúnaði sem mælikvarða á, hversu misvel þjóðum hefur gengið að feta götuna í átt til hagsældar, velmegunar og árvissra kjarabóta. Samkvæmt tölunum hefur okkur miðað hægar en nágrannaþjóðunum.

Afleiðingin af stefnu okkar er, að óeðlilega mikill hluti aflafjár okkar fer í að halda uppi atvinnu í landbúnaði. Þessi sérstaða okkar dregur úr flutningi fólks til arðbærari atvinnugreina, hækkar matarkostnað heimilanna og dregur úr getu ríkisins til að halda uppi velferð.

Þetta eru ekki ný sannindi, heldur margtuggin. Samt þarf stundum að minna á þau, af því að ekki er fyrirsjáanleg nein breyting á þeirri stefnu stjórnvalda og kjósenda, að lífskjörum þjóðarinnar skuli haldið niðri til að halda uppi óeðlilega miklum landbúnaði í harðbýlu landi.

Sérstök ástæða er til að minna á þetta nú, þegar kjarasamningar standa yfir og aðilar vinnumarkaðarins eru að reyna að skipta peningum, sem ekki eru til ráðstöfunar, af því að þeim hefur verið brennt á altari landbúnaðarins og það með vitund aðila vinnumarkaðarins.

Þegar málsvarar stéttarfélaga kvarta um, að ekki sé unnt að lifa á lágu töxtunum, og þegar málsvarar atvinnurekenda svara með því að segja, að ekki sé hægt að borga hærra kaup, er gott að minna á samábyrgð beggja aðila á rangri atvinnuvegastefnu þjóðarinnar.

Áratugum saman hefur þjóðin haft greiðan aðgang að upplýsingum um óeðlilega mikinn landbúnað í landinu og um áhrif þess á lífskjör hennar. Samt hefur fólk þverskallazt við að þvinga umboðsmenn sína í stjórnmálum til að leggja niður ríkisafskipti af landbúnaði.

Núverandi stefna í landbúnaði nýtur stuðnings rúmlega helmings þjóðarinnar. Þessi hluti þjóðarinnar getur engan veginn ætlazt til, að lífskjör séu eins góð hér á landi og í löndum, þar sem betur hefur gengið að draga úr landbúnaði. Fólk verður að velja og hafna.

Sérstaklega á þetta við um forustufólk í stéttarfélögum, sem hefur tekið þátt í opinberum landbúnaðarnefndum, svo sem svolkölluðum sex manna og sjö manna nefndum, og á þannig beina og persónulega aðild að verðmætabrennslunni. Þetta fólk á ekki að væla um fátækt.

Af ýmsum ástæðum fátæktar okkar vegur þyngst, að þjóðin hefur sjálf ákveðið, að landbúnaður skuli vera tvisvar til fjórum sinnum meiri en eðlilegt er.

Jónas Kristjánsson

DV