Góðæri greiðir fyrir lausn

Greinar

Nýjasta þjóðhagsspá ársins sýnir, að tekizt hefur að ná markmiðum heildarkjarasamninganna frá í febrúar. Verðbólgan hefur náðst niður fyrir 10% og kaupmáttur hefur vaxið um 8%. Flestar stærðir þjóðarbúskaparins sýna hagstæða þróun, sumar ótrúlega hagstæða.

Einna verst hefur gengið að koma lagi á rekstur ríkisins sjálfs. Eftir mánuð er búizt við fjárlagafrumvarpi, sem staðfesti árangursleysið. Sumpart stafar það af útgjöldum, sem ríkið tók að sér vegna febrúarsamninganna, og sumpart af ótta við að skera niður útgjöld.

Þetta þýðir, að í næstu samningum, um eða upp úr næstu áramótum, verður ríkið ekki aflögufært. Aðilar vinnumarkaðsins verða sjálfir að finna útkomu án þess að geta átt von í félagsmálapökkum eða annarri opinberri tilfærslu, sem kostar ríkissjóð peninga.

Forsætisráðherra hefur lagt til, að svigrúmið, sem auknar þjóðartekjur eru í þann veginn að færa okkur, verði notað í vetur til að jafna lífskjörin fremur en að auka kaupmátt enn frá því, sem nú er. Þessi tillaga er eðlileg og sanngjörn við núverandi aðstæður.

Að vísu er launaskriðsfólkið ekki eitt um að hafa hagnazt á vexti kaupmáttar á árinu. Horfur eru á, að kaupmáttur taxtakaups verði í árslok orðinn um 7% hærri en hann hefur verið síðustu tvö árin. Það er því ekki rétt, að taxtarnir hafi setið alveg eftir.

En í stórum dráttum stendur enn eftir skilnaðurinn, sem varð undanfarin ár milli alls þorra þjóðarinnar, sem bjargaði sér á tveimur fyrirvinnum, aukavinnu, bónus, menntun eða aðstöðu, og minnihlutans, sem sat eftir í sílækkandi kaupmætti nakins lágtaxtakaups.

Í árslok verður kaupmáttur taxtanna enn um 15­20% lægri en hann var fyrir erfiðleikatímabilið 1983­1985, en hafði verstur orðið um 25% lægri. Auðvelt er að vera sammála forsætisráðherra um, að brýnt sé að nota góðærið, sem nú er hafið, til að minnka bilið enn.

Til þess að svo verði, þurfa aðilar vinnumarkaðsins að stefna að launajöfnun í næstu kjarasamningum. Það hlyti þá að gerast í heildarsamningi, þar sem hin öflugri launamannafélög sættu sig við óbreyttan kaupmátt árið 1987, gegn auknum kaupmætti lágtaxtafólksins.

Nú heyrast hins vegar raddir um, að ekki beri að fara heildarsamtakaleiðina í þessum kjarasamningum, heldur semji fólk á mörgum stöðum, jafnvel á einstökum vinnustöðum. Slík aðferð hefur marga kosti og ætti að auka samræmið í afkomu fyrirtækja og launafólks.

Hins vegar er þetta síður en svo líklegt til að jafna kjör landsmanna og hentar líklega fremur síðar, þegar búið er að jafna launamisræmið, sem hefur orðið á undanförnum árum. En auðvitað er þetta fyrst og fremst ákvörðun, sem Alþýðusambandið og félög þess taka.

Bent hefur verið á, að ekki sé aðeins spenna í skiptingu þjóðaraflans milli launþega og fyrirtækja, heldur innan hvors aðila. Sumar atvinnugreinar hafa farið halloka gagnvart öðrum greinum alveg eins og sumir hópar launafólks hafa farið halloka gagnvart öðrum.

Æskilegt er, að heildarsamtök beggja aðila reyni að slaka á þessari innri spennu, svo að auðveldara verði að komast að heildarniðurstöðu í almennum kjarasamningum. Ríkið er líka málsaðili, því að það ræður miklu, um afkomu einstakra greina, t.d. með gengisskráningu.

Þannig steðja ýmis vandamál að þeim, sem munu bera ábyrgð á næstu kjarasamningum. En góðærið og aukni kaupmátturinn ættu þó að greiða fyrir lausn.

Jónas Kristjánsson

DV