Góðæri í vændum

Greinar

Skjótt hafa skipazt veður í lofti. Ytri aðstæður í efnahagsmálum Íslendinga hafa snögglega batnað. Þar með hefur ríkisstjórnin orðið traustari í sessi og komizt í aðstöðu til að miðla málum á vinnumarkaði, svo að friður haldist um að nýta góðærið til fulls.

Einna mestu máli skiptir lækkun hráolíunnar úr 30 dollurum í 20. Hér á landi ætti hún að endurspeglast í 1,4 milljarða króna verðlækkun ársnotkunar okkar af unnum olíuvörum. Þetta er gjaldeyrissparnaður, sem kemur öllum að gagni og útgerðinni að mestu gagni.

Teikn eru á lofti um, að olían kunni að lækka niður í 15 dollara og jafnvel 10. Dæmi um slíkar sölur eru þegar til, en óráðlegt er að gera ráð fyrir, að þær verði varanlegar. Enda má segja, að 20 dollara verðið sé okkur nægt happ, sem ekki hefni sín í síðari hækkun.

Til viðbótar við þennan gjaldeyrissparnað kemur aukning gjaldeyristekna um einn milljarð króna á ári vegna hækkunar á verði fiskafurða erlendis. Þessi hækkun ætti að geta orðið langvinn, því að olíulækkunin mun efla dollarann og vestrænan efnahag.

Spáð er, að olíulækkunin muni ekki aðeins auka hagvöxt hjá viðskiptavinum okkar á Vesturlöndum, heldur í framhaldi af því draga úr verðbólgu og lækka raunvexti. Sú lækkun á síðan að geta lækkað raunvexti hér á landi, því að við treystum á erlent lánsfé.

Alþýðusambandið hefur, með stuðningi Vinnuveitendasambandsins, lagt fram tillögur, sem ríkisstjórnin hefur tekið vel. Þær fjalla um, að gengi krónunnar verði fryst, skattar og vextir lækkaðir og verðlagshækkanir stöðvaðar. Þetta er allt hægt að gera.

Annað mál er, hversu skynsamlegt það er til langframa, að stjórnvöld stundi kukl af þessu tagi. Hágengi gjaldmiðils hefur hvarvetna reynzt skaða þjóðarhag. Allar handaflsgerðir af því tagi, svo og í vöxtum og verðlagi, hafa tilhneigingu til að hefna sín.

Hins vegar mun þessi ríkisstjórn halda hinni hefðbundnu stefnu að skrá gengi krónunnar á þann hátt, að útgerð og fiskvinnsla standi sem næst á núlli. Og nú hafa ytri aðstæður leitt til, að þessi hornsteinn atvinnulífsins er óvænt kominn upp í núllið.

Ríkisstjórnin mun því telja sér kleift að fallast á tillögu Alþýðusambandsins um gengisfrystingu. Ennfremur gæti vaxtalækkun í umheiminum leitt til, að raunvextir lækkuðu skaðlítið hér landi. Loks veitir olíulækkunin svigrúm til að færa skatta yfir á olíuvörur.

Með slíkum hætti er ekki fráleitt að ætla, að þjóðarsátt geti tekizt um lækkun verðbólgunnar og lítillega bættan kaupmátt. Hið síðara er raunar sjálfgefið í góðæri eins og virðist í uppsiglingu. Hið fyrra verður vinsælt, þótt það sé handaflsvinna, ekki varanleg.

Góðæri eru ekki eingöngu af hinu góða. Góðærið, sem nú er í uppsiglingu, mun fresta því, að ríkisstjórnir telji sig þurfa að snúa sér að raunhæfum og varanlegum aðgerðum á borð við raunvextina á sínum tíma. Markaðsgengi krónunnar verður til dæmis að bíða.

Sífelld misnotkun stjórnvalda á gengisskráningu til að auðvelda sér róður gegn verðbólgu hefur leitt til útbreiðslu skynsamlegra skoðana um, að ekki henti efnahagslegu sjálfstæði okkar að hafa sérstaka krónu, ekki fremur en sérstakar mælieiningar á öðrum sviðum.

Hinn nýi möguleiki á gengisfrystingu, bættum árangri í verðbólgustríðinu og friði á vinnumarkaði mun valda því, að ekki verður hlustað á neitt slíkt að sinni.

Jónas Kristjánsson

DV