Góðærið er happdrætti

Greinar

Góðærið í þjóðfélaginu stafar af auknum árangri í úthafsveiðum sjávarútvegsins. Ef engin væri aukningin á því sviði, væri enginn hagvöxtur í landinu, heldur stöðnun. Þannig hefur það raunar verið áratugum saman, að góðæri fylgir aflabrögðum í sjávarútvegi.

Bjartsýnin í þjóðfélaginu stafar af þessu og af væntingum um nýja stóriðju. Framkvæmdir við orkuver og stóriðju hafa reynzt svipað happdrætti í þjóðarbúskapnum og skyndileg aflaaukning. Þær breyta náttúrulegri stöðnun gamaldags þjóðfélags í tímabundið góðæri.

Með vestrænum þjóðum er hagvöxtur með ýmsum hætti, en alltaf einhver. Stundum er hann mikill og stundum lítill. Stöðnun er þar nánast óþekkt fyrirbæri. Hún er ekki náttúrulegt ástand efnahagslífsins við staðnaðar ytri aðstæður eins og hún er hér á landi.

Þjóðfélag okkar er þeim annmarka háð að þurfa alltaf nýjan og nýjan happdrættisvinning til að fleyta sér af einu þrepi á annað. Fyrr á öldinni voru það blessaðar styrjaldirnar, sem færðu björg í bú. Síðar voru það útfærsla fiskveiðilögsögu og stóriðjuframkvæmdir.

Af eigin völdum hefur íslenzkt efnahagslíf ekki kraft til árviss hagvaxtar. Þegar engir eru happdrættisvinningar, staðnar allt og lífskjör versna. Eftir langvinna stöðnun erum við nú orðnir eftirbátar, sem auglýsum í útlöndum, að hér sé gott að fjárfesta í láglaunaríki.

Sumpart stafar þetta af fámenni og fjarlægð frá umheiminum, en að öðru leyti af frumstæðara þjóðfélagi. Við búum til dæmis við erfið landbúnaðarskilyrði, en höldum samt uppi hlutfallslega fjölmennari landbúnaði en samanburðarþjóðir okkar gera beggja vegna hafsins.

Við erum eftirbátar annarra í að leyfa markaðsöflum að ráða ferðinni. Við búum við einokun og fáokun á miklu fleiri sviðum en eðlileg eru talin í nágrannalöndunum. Samgöngur, tryggingar, olíuverzlun, landbúnaður, póstur og sími eru átakanleg dæmi um þetta.

Í stað markaðar leggjum við allt okkar traust á misvitra ráðherra. Við viljum að þeir séu sífellt að leysa mál með úrskurðum og reglugerðum, sem gjarna mega lyfta þrengstu sérhagsmunum þeirra, sem hæst væla hverju sinni. Við viljum skilningsríkan geðþótta.

Skilningsríkar fyrirgreiðslur voru nauðsynlegar á fyrri öldum, er þjóðin rambaði hvað eftir annað á barmi almennrar hungursneyðar. En viðhorfin, sem þá gerðu landið byggilegt, eru nú fjötur um fót, þegar við höldum í humátt á eftir öðrum inn í þriðja árþúsundið.

Okkar viðhorf og áhugamál snúast um fyrirgreiðslur, reglugerðir, pólitískar ráðningar, almenna velferð, vinsamlegt handafl, það er að segja um almennt jákvæðan geðþótta. Ríkjandi viðhorf í vestrænum ríkjum hafa hins vegar færzt í átt til ópersónulegra markaðsafla.

Meðan við höldum okkur við gömlu gildin, getum við ekki reiknað með hagvexti, nema þegar við fáum happdrættisvinninga í formi aflabragða og stóriðjuframkvæmda. Í annan tíma verðum við að sætta okkur við að dragast aftur úr og verða láglaunaþjóð.

Það er ekkert yfirvald, sem hefur ákveðið, að svona skuli þetta vera. Almenningur er hlynntur opinberu handafli og millifærslum. Hann er ýmist hlutlaus í garð markaðsafla eða beinlínis andvígur þeim. Þetta kemur fram í gengi manna og viðhorfa í stjórnmálunum.

Það væri ekki létt verk að gera Ísland óháð utanaðkomandi happdrættisvinningum. Það mundi kosta hugarfarsbyltingu, sem ekki er sjáanleg um þessar mundir.

Jónas Kristjánsson

DV