Góðærið frestar nútíma

Greinar

Íslendingar hafa efnazt vel á síðustu þremur árum og munu væntanlega gera það áfram á allra næstu árum. Eftir sex mögur stöðnunarár 1987-1993 erum við nú að sigla inn á mitt sóknarskeið, sem mun gera okkur kleift að ná aftur fyrri stöðu í hópi auðþjóða heims.

Góðærið frá 1994 hefur að einu leyti verið ólíkt fyrri skeiðum af því tagi. Verðbólgan hefur verið lítil, um 2%, sem er heldur minna en í flestum nágrannalöndum okkar. Þetta segir þá nýstárlegu sögu, að sæmilegt jafnvægi hefur ríkt í þjóðarbúskapnum, þrátt fyrir góðæri.

Við erum komin í þá stöðu að fullnægja nokkurn veginn og sumpart alveg þeim skilyrðum, sem forusturíki Evrópu vilja setja fyrir þátttöku í næsta risaskrefi evrópskrar efnahagssamvinnu, sameiginlegri Evrópumynt. Við getum náð fari með þeirri hraðlest.

Hingað til höfum við haft mun meira gagn en ógagn af evrópskri efnahagssamvinnu, fyrst í Fríverzlunarsamtökunum og nú í Efnahagssvæðinu. Ekki aðeins hefur hagkerfið styrkzt, heldur hefur velferð einnig aukizt vegna harðari krafna Evrópu um verndun lítilmagnans.

Því miður skortir okkur pólitískan kjark til að stíga skrefið frá íslenzkri krónu, sem er marklaus pappír í útlöndum og framleiðir mun hærri vexti hér á landi en eru og verða í löndum myntbandalagsins. Við verðum vegna þessa fyrir milljarðatjóni á hverju ári.

Þótt einkennilegt megi virðast, er það kvótabraskið, sem á mestan þátt í nýbyrjuðu blómaskeiði. Það hefur flutt veiðiheimildir til þeirra, sem kunna að gera þær arðbærar, og gert sjávarútveginn hagkvæmari en hann var áður. Þjóðfélagið í heild hefur hagnazt á þessu.

Því miður hefur okkur ekki tekizt að gæta réttlætis um leið. Við höfum trassað að skattleggja forréttindi aðgangs að takmarkaðri auðlind. Þannig hefur kvótakerfið orðið svo hatað um allt land, að það getur komizt í hreina fallhættu, ef ekki verður bætt úr skák.

Reiknað er með, að næstu árin verði það stóriðju- og virkjanagerð, sem taki við hlutverki kvótabrasksins sem aflvél góðærisins. Búast má við, að full atvinna verði í landinu fram yfir aldamót. Það þýðir jafnframt, að launaskrið verður á ýsmum sviðum umfram kjarasamninga.

Ljóst er, að kaupmáttur eykst á næstu árum, sumpart með kjarasamningum og sumpart til hliðar við þá. Ef aukningin verður í takt við landsframleiðslu, mun kaupmátturinn batna um 4% á hverju ári. Það er feiknarhá tala, sem segir til sín, þegar góðærisárin hlaðast upp.

Þar sem stéttaskipting hefur aukizt á undanförnum árum, er eðlilegt, að krafizt sé meiri hækkunar hinna lægst launuðu. Um leið er skiljanlegt, að stjórnvöld og viðsemjendur stéttarfélaga óttist, að slík hækkun skríði að venju upp allan stigann og valdi verðbólguskriðu.

Vonandi ná málsaðilar lendingu milli þessara sjónarmiða án undangengins verkfallatjóns og án verðbólguskriðu. Það verður ekki auðvelt, því að allt of stór hluti atvinnulífsins býr við takmarkaða samkeppni og hefur aðstöðu til að velta kauphækkunum út í verðlagið.

Sú hætta er einmitt eitt gleggsta dæmi þess, að við höfum trassað að smíða ýmsa ramma, sem tryggja sjálfvirkan stöðugleika og framfarir, svo sem afnám hafta og einkaréttar, afnám ríkisrekstrar á landbúnaði, aðild að Evrópusambandinu og upptöku veiðileyfagjalds.

Skuggahlið góðærisins felst einmitt í, að það gerir okkur kleift að fresta ýmsum grundvallarbreytingum, sem einar geta koma landinu inn í nútímann.

Jónas Kristjánsson

DV