Góðar fréttir enn um sinn

Greinar

Um miðja síðustu viku var í sovézkum blöðum farið að fordæma innrás Rauða hersins í Tékkóslóvakíu árið 1968. Þetta kippti stólunum undan valdhöfunum í Tékkóslóvakíu, sem einmitt báðu um þessa innrás á sínum tíma til að koma Alexander Dubcek frá völdum.

Nú er Dubcek mættur aftur á götufundina og kvislingarnir ráða ekki við neitt, enda hefur í Moskvu, að undirlagi Gorbatsjovs, verið tekin upp stefna í málefnum lýðræðis og efnahags, sem gengur lengra í átt til vesturs en stefna Dubceks gerði á sínum tíma í Tékkóslóvakíu.

Á undraskömmum tíma hefur flætt undan valdhöfum allra fylgiríkja Sovétríkjanna í Austur-Evrópu nema Rúmeníu. Að Austur-Þjóðverjum horfnum stóðu harðlínumennirnir í stjórn kommúnista í Tékkóslóvakíu að lokum einangraðir í dýpra vatni en þeir réðu við.

Árangur Austur-Evrópu byggist að töluverðu leyti á, að harðlínumenn misstu stuðning Moskvu og urðu að halla sér hver að öðrum. Eftir því sem ríkin féllu eitt af öðru frá hörðu línunni hefur grisjast í þessum hópi. Því hafa menn unnvörpum verið að segja af sér.

Í hvert skipti sem lýðræði hefur unnið áfangasigur í Austur-Evrópu að undanförnu hafa líkurnar minnkað á afturhvarfi. Harðlínumenn hafa enga valdamiðstöð lengur til að halla sér að, því að Ceausescu í Rúmeníu telst tæplega nógu mikill bógur út á við.

Sigur lýðræðis er samt ekki gulltryggður í Austur-Evrópu. Andstæðingar breytinganna sitja án efa hvarvetna á svikráðum. Þeir hafa samband sín í milli yfir landamærin og reyna einnig að afla sjónarmiðum sínum fylgis meðal ráðandi manna í herjum landanna.

Sem fyrr skiptir mestu, hverjar sviptingarnar verða í Sovétríkjunum. Ef Gorbatsjov og hans mönnum tekst að halda Rauða hernum frá valdaráni, er ekki unnt að sjá, að harðlínumenn í Austur-Evrópu geti undið ofan af þróuninni og fært ástandið nálægt fyrra horfi.

Flest bendir til, að Tékkar og Slóvakar fái frið til að þróa sín mál í átt til lýðræðis á svipaðan hátt og er að gerast hjá Austur-Þjóðverjum og hafði áður gerzt hjá Pólverjum og Ungverjum. Lýðræði og fjölflokkakerfi virðast vera á sigurgöngu um alla Austur-Evrópu.

Koma Tékkóslóvakíu í hópinn skiptir miklu, meðal annars af því að hún lokar dæminu í heilum heimshluta. Einnig af því að þar var gróin lýðræðishefð fyrir stríð, svo að búast má við, að nýjum valdhöfum reynist tiltölulega auðvelt að taka upp vestrænar hefðir.

Braut Tékkóslóvakíu og Austur-Þýzkalands verður ekki eins þyrnum stráð og hinna ríkjanna. Austur-Þýzkaland mun njóta góðs af vesturþýzku fé og Tékkóslóvakía af iðnaðarhefðum. Verr mun ganga í Póllandi og Ungverjalandi, sem ramba á barmi gjaldþrots.

Öll þessi ríki munu njóta mikillar efnahagsaðstoðar úr vestri, svo framarlega sem efnd verða loforð um lýðræði og fjölflokkakerfi. En efnahagsleg viðreisn næst ekki með fjáraustri að utan. Til viðbótar verður að koma vilji, framtak og svigrúm í löndum Austur-Evrópu.

Erfiðast mun þetta verða í Sovétríkjunum sjálfum, þar sem markaðsöflum hefur verið haldið niðri kynslóðum saman. Þar eru komin í ljós merki um, að meðal almennings ríkir mikill ótti við frjálsræði í viðskiptum og framleiðslu, svo og öfund í garð hinna framtakssömu.

Enn um sinn er því hulin þoku hin fjarlægari framtíð Sovétríkjanna og Austur-Evrópu. En í bráð mun halda áfram sigurganga lýðræðis og fjölflokkakerfis.

Jónas Kristjánsson

DV