Góðar fréttir í bland

Greinar

Stækkun Evrópusamfélagsins með aðild Norðurlanda hefur ýmis bein og óbein áhrif á stöðu Íslands í umhverfinu. Flest eru þau til bóta, þótt einmanalagt og raunar nokkuð dýrt kunni að verða í Fríverzlunarsamtökunum, ef Ísland verður eitt eftir í þeim eða með Noregi einum.

Svíar og Finnar munu hafa góð áhrif á Evrópusamfélagið. Þeir munu leggja lóð á vogarskálina gegn ofbeldishneigðri efnahagsfrekju, sem í allt of miklum mæli einkennir samskipti Evrópusamfélagsins við umheiminn, svo og gegn miðstýringaráráttunni frá Frakklandi.

Svíar og Finnar verða að því leyti á báti með Bretum, að þeir munu fremur fylgja því, að Evrópusamfélagið verði stækkað með aðild fleiri ríkja, heldur en að það verði dýpkað með nánari miðstýringu. Það léttir okkur aðild, þegar við teljum okkur þurfa á henni að halda.

Svíar og Finnar munu leggjast gegn efnahagslega ofbeldishneigðum vinnubrögðum á við þau, sem frönsk stjórnvöld hafa stundað að undanförnu við takmörkun innflutnings á fiski. Eftir inngöngu Norðurlanda verður líklega heldur minni hætta á uppákomum af því tagi.

Þegar kemur að samningum um aðild Íslands, hvenær sem það verður, munu Svíar og Finnar stuðla að því, að ekki verði gerðar óhóflegar kröfur í okkar garð í stíl við þær, sem Spánverjar hafa haldið fram gegn Norðmönnum og hafa komið í veg fyrir samkomulag við Norðmenn.

Hvernig sem hin efnahagslegu utanríkismál Íslendinga rekast á næstu árum, þá er ljóst, að við verðum að halda verndarhendi yfir auðlind hafsins. Aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu gerir okkur það kleift. Aukin Evrópuaðild má ekki tefla þeirri stöðu í tvísýnu.

Við verðum svo um leið að átta okkur á, að sjálfir rekum við ofbeldishneigða efnahagsstefnu gagnvart útlöndum, alveg eins og Frakkar og Evrópusamfélagið. Við leggjum hrikalegar hindranir í götu innflutnings á búvöru. Okkur verður í auknum mæli hegnt fyrir það.

Búast má við fleiri uppákomum í stíl við frönsku innflutningshömlurnar á íslenzkum fiski og við kanadísku innflutningshömlurnar á íslenzkri iðnaðarvöru. Auðvelt verður fyrir erlenda haftasinna að segja sig bara vera að nota íslenzk vinnubrögð í utanríkisviðskiptum.

Umræður á Alþingi um búvöru benda til, að mikill meirihluti íslenzkra stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka stundi stefnu Framsóknarflokksins í eindreginni blindni og vilji gæta hagsmuna landbúnaðarins á kostnað sjávarútvegs, iðnaðar, neytenda og skattgreiðenda.

Svo forstokkaðir eru sumir ráðamenn okkar, að forsætisráðherra sagði beinlínis í fyrradag, að nýgert samkomulag í alþjóðlega fríverzlunarklúbbnum GATT skipti okkur ekki miklu og að við gætum gefið okkur góðan tíma til að athuga, hvort við ættum að staðfesta það.

Meðan íslenzk stjórnmál eru á slíkum villigötum geta horfur í utanríkisviðskiptum ekki talizt góðar. Þegar fréttirnar að innan eru að mestu leyti slæmar, þurfum við þeim mun betri fréttir að utan, svo sem þær nýjustu, að Evrópusamfélagið sé að víkka í átt til norðurs.

Allir fjölþjóðasamningar, sem víkka fríverzlun án þess að efla miðstýringu, hafa góð áhrif á viðskiptaandrúmsloftið á svæðinu og jaðarsvæðum þess. Aðild Svía og Finna að Evrópusamfélaginu er sigur framfaraafla gegn afturhaldi á borð við það, sem ræður Alþingi Íslendinga.

Meðan góðar fréttir berast í bland við slæmar er ekki útilokað, að við getum áfram lifað góðu lífi á að selja vöru og þjónustu til þeirra, sem beztu verði vilja kaupa.

Jónas Kristjánsson

DV