Góðar hliðar huldufrumvarps.

Greinar

Úti í bæ hefur án afskipta Alþingis verið samið frumvarp til nýrra laga um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Frumvarpið hefur verið til opinberrar umræðu hjá ýmsum helztu valdastofnunum þjóðfélagsins, svo sem Stéttarsambandi bænda og Mjólkursamsölunni.

Áður en hægfara afnám þingræðis hófst, voru frumvörp ekki samin úti í bæ og ekki rædd á fundum úti í bæ, áður en þingmenn fengu að sjá þau. Þá fjölluðu þingnefndir um frumvörpin og fengu um þau greinargerðir frá aðilum úti í bæ, þar á meðal hagsmunaaðilum.

Í þessu tilviki virðist ætlunin að sýna frumvarpið ekki á Alþingi fyrr en búið er að slípa það í meðförum hagsmunaaðila. Síðan er Alþingi sem afgreiðslustofnun og atkvæðavél fyrir ríkisstjórnina ætlað að leggja blessun sína yfir niðurstöðuna.

Þrátt fyrir þessa annmarka er sitthvað gott við utanalþingisfrumvarpið. Það má meðal annars sjá af andmælum Mjólkursamsölunnar, sem “varar alvarlega við lögfestingu” þess. Það hlýtur að vita á gott, þegar kveinstafir heyrast frá þrælahöldurum landbúnaðarins.

Hingað til hefur hið sjálfvirka fyrirgreiðslukerfi í landbúnaði miðað að eflingu vinnslustöðvanna. Þær hafa fengið peningana í veltuna og borgað bændum eftir dúk og disk. Þær hafa verið með sitt á hreinu og þrælarnir uppi í sveitum hafa síðar fengið ruðurnar.

Samkvæmt huldufrumvarpinu eiga vinnslustöðvarnar hér eftir að staðgreiða bændum. Þær eiga að greiða bændum um hver mánaðamót fyrir innlagða mjólk og ekki síðar en 10. desember fyrir sláturfé að hausti. Þetta þykir vinnslustöðvunum auðvitað afleitt.

Annað atriði, sem fer fyrir brjóstið á þrælahöldurunum, er, að frumvarpið gerir ráð fyrir afnámi einokunar í vinnslu og dreifingu afurða landbúnaðarins. Hver sem er má koma upp mjólkurbúi eða sláturhúsi og til dæmis selja mjólk á núverandi eignarsvæði Mjólkursamsölunnar.

Þetta er auðvitað hræðileg tilhugsun, en veldur andvöku í undanrennumusterinu við Bitruháls, sem reist er á kostnað bænda og neytenda. Verður kannski næst bannað að undirbjóða keppinauta í brauði og safa með því að láta hluta kostnaðarins koma fram í mjólkurverði?

Ennfremur er til bóta í frumvarpinu, að gert er ráð fyrir, að vald verði flutt frá landbúnaðarforstjórum Framleiðsluráðs til ráðuneytisins, þar sem það á heima. Of lengi hefur Framleiðsluráð sem sjálfseignarstofnun ráðskazt með hluta ríkisvaldsins.

Samt væri enn meiri þörf á að semja lagafrumvarp um flutning valds frá Búnaðarfélagi Íslands til ríkisvaldsins. Páll Líndal benti nýlega í greinargerð á, að ríkið væri meira eða minna valdalaust í málum landbúnaðarins gagnvart stofnunum úti í bæ.

Samkvæmt framvarpinu á ennfremur að breyta því óeðlilega ástandi, að Grænmetisverzlun landbúnaðarins sé ríkiseign, þegar hún vill ekki borga skatta, en eign Framleiðsluráðs landbúnaðarins, þegar hún og ráðið vilja hafna afskiptum ríkisvaldsins.

En ekki er verið að leggja niður neina einokun, þótt Grænmetisverzlunin verði seld garðyrkjubændum. Neytendur og kaupmenn verða hér eftir sem hingað til að berjast fyrir frjálsri verzlun með grænmeti.

Og svo er ekki einu sinni víst, að Alþingi fái að sjá frumvarpið og leggja blessun sína yfir það.

Jónas Kristjánsson.

DV