Járnbrautir eru skemmtilegri aðferð við að ferðast en flugið. Á öðrum klassa í Evrópu er meira persónurými, við getum teygt úr okkur, verið með farangurinn handhægan, keypt okkur snarl, ef við nennum að bera okkur eftir því, lesið góða bók eða sofnað við rólegan nið ferðalagsins. Í vögnunum er fyrst og fremst nóg pláss milli breiðra stóla, enda kem ég úthvíldur út úr þriggja tíma lestarferð, en örmagna úr þriggja tíma flugi á þessum venjulega gripaklassa. Eini gallinn við lestirnar er, að nú orðið kostar farseðillinn þar eins mikið og í fluginu, eftir að flugverðlagið hrundi.